138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú venjan að þakka þingmönnum fyrir ræður þeirra en ég er ekki alveg viss um að ég geti það í þessu tilviki. Mér fundust skilaboðin frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni vera mjög alvarleg og kjarninn í ræðu hans var: Lifi samtryggingin. (BjarnB: Hvað segirðu?) Lifi samtrygging stjórnmálamanna. (BjarnB: Rugl er þetta í þér, kona.) (BirgJ: Heyr, heyr.) (BjarnB: Algjör vitleysa.) Valdi á ekki að fylgja ábyrgð, heldur bara vald. Samt var ýmislegt í ræðu þingmannsins sem ég get verið sammála, hann talaði um það að þessi leið væri neyðarbremsa fyrir Alþingi. Það væri ástæðan fyrir því að þessi leið hefði ekki verið notuð hingað til og að engin slík tillaga hefði áður komið inn í þingið. Þegar illa væri komið fyrir þingræði landsins væri þetta neyðarbremsan sem við ættum að taka í.

Samþingmaður minn sem sat hér þegar neyðarlögin voru sett á sínum tíma sagði að honum hafi fundist þingmenn þá hafa verið eins og áhugasamir og vel meinandi áhorfendur. Fyrrverandi umhverfisráðherra sagði í andmælabréfi til þingmannanefndarinnar að ríkisstjórnin fúnkeraði eins og 12 trillukarlar sem hittust nokkrum sinnum til að ræða aflabrögð og fréttir vikunnar og samþingmaður hv. þingmanns talaði um að hún upplifði sig eins og afgreiðslumann á kassa sem hefði litla eða enga skoðun eða áhrif á kaup viðskiptavinanna.

Er það sem sagt mat þingmannsins að heill ríkisins hafi ekki verið ógnað í aðdraganda hrunsins og að lýðræðinu hafi ekki verið vikið til hliðar við ýmsar mjög mikilvægar ákvarðanir? (Forseti hringir.)