138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svör hans því að það brennur orðið á þjóðinni hvort hreinlega þurfi að boða til nýrra kosninga til að hægt sé að mynda hér starfshæfan meiri hluta, því að svo virðist sem Alþingi eða réttara sagt, ætla ég að leiðrétta mig, að framkvæmdarvaldinu takist ekki að hreyfa við nokkrum málum. Hér ganga þúsundir um atvinnulausar, hér vantar öll atvinnutækifæri. Ríkisstjórnin, jú, hún er góð í því að ráða fólk inn í ráðuneytin án auglýsingar en annað er ekki í stöðunni.

Hér kemur mál eftir mál inn á borð ríkisstjórnarinnar sem hún er ekki fær um að leysa. Því spyr ég á ný: Telur hv. þm. Bjarni Benediktsson það í spilunum að hægt sé að mynda starfhæfan meiri hluta hjá þeim flokkum sem sitja á Alþingi? Eða er orðið tímabært að lýsa yfir allsherjarvantrausti (Forseti hringir.) á þessa ríkisstjórn og hvetja hana til þess að boða til kosninga?