138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Margt má nú segja um þá umræðu sem fram hefur farið undanfarna daga um þær tillögur sem liggja fyrir og þær ákærur sem hluti af þingmannanefndinni hefur lagt fram. Undarlegast hefur mér eiginlega fundist samt sem áður að lesa og heyra í fjölmiðlum og hlusta á úr ræðustól Alþingis menn segja sem svo: Þeir þingmenn sem greiddu því atkvæði að þetta ferli fór af stað sem nú hefur leitt til þeirrar niðurstöðu sem þingmannanefndin hefur komist að eru nánast bundnir af niðurstöðu nefndarinnar. Þetta er auðvitað fráleitur, undarlegur málflutningur og lýsir ekki mikilli þekkingu á þingstörfum almennt. T.d. var mjög sérkennilegt að hlusta á þessi viðhorf höfð uppi í morgunútvarpinu í dag þegar sagt var að undarlegt væri að þeir þingmenn, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, sem hefðu staðið að því að ferlið fór af stað skyldu nú dirfast að gagnrýna niðurstöðuna þegar hún er fengin. Auðvitað stóðum við þingmenn að því, utan þingmenn Hreyfingarinnar sem núna hins vegar verja þessa niðurstöðu með kjafti og klóm, sérstaklega leyndarhyggjuna í kringum hana, þar eru þingmenn Hreyfingarinnar fremstir í flokki. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðust að vísu gegn því að fara í þetta ferli en við hinir þingmennirnir sem stóðum að þessu gengum auðvitað út frá því sem blasti við hverjum manni að við gætum ekki fyrirfram kvittað upp á einhverja niðurstöðu sem kæmi út úr þessari þingmannanefnd, hvað þá tillögur í þá veru að sækja til saka þingmenn og ráðherra sem hér er verið að komast að niðurstöðu um. Það svipti engan rétti til að taka efnislega afstöðu til málsins þegar það kæmi inn í þingið.

Hv. formaður nefndarinnar, Atli Gíslason, hvatti til þess í upphafi umræðunnar að hér færi fram málefnaleg og beinskeytt umræða. Það kom mér ekki á óvart. Ég hef starfað með hv. þingmanni og það kom mér ekki á óvart að hann hvetti til þess að umræðan yrði málefnaleg en menn kæmu hins vegar gagnrýni sinni á framfæri. Þess vegna var ég dálítið hissa á því að hlusta á viðbrögðin við ræðu hæstv. forsætisráðherra frá því í gær. Það kom mér á óvart að heyra hversu einstakir þingmenn tóku óstinnt upp það sem hæstv. forsætisráðherra sagði.

Hvað var það sem hæstv. ráðherra sagði? Hún sagði t.d. að það hefði verið eðlilegt að leita utanaðkomandi álits um hvort réttarstaða þeirra sem nú er lagt til að verði ákærðir standist nútímakröfur um sakborninga. Hún lýsti sjálf efasemdum um að svo væri. Er það óeðlileg krafa? Er það ósanngjörn krafa? Höfum við ekki hlustað á kröfur í þá veru frá þingmönnum úr hverjum flokknum á fætur öðrum? Við þurfum að fá utanaðkomandi álit til að komast að niðurstöðu í flóknum og vandmeðförnum málum.

Hæstv. ráðherra undraðist enn fremur að þingmannanefndin hefði ekkert rannsakað sjálf, sérstaklega í ljósi þess að í niðurstöðu þingmannanefndarinnar um ákærutillögur væri vikið frá þeirri niðurstöðu sem birtist í rannsóknarskýrslu Alþingis.

Hæstv. ráðherra efaðist líka um að þingsályktunartillögurnar væru í raun tækar til afgreiðslu. Hún taldi enn fremur mjög vafasamt og lýsti miklum efasemdum um að hægt væri að ákæra ráðherrana fyrrverandi eins og þingsályktunartillögurnar gera ráð fyrir.

Hún sagði jafnframt að þótt ákæruatriðin í tillögunum væru alvarleg yrði að hafa hugfast að ráðherrarnir sem voru nefndir hefðu ekki verið í færum til þess á árinu 2008 að afstýra bankahruninu. Hæstv. ráðherra taldi að þessir þingmenn og fyrrverandi ráðherrar hefðu ekki notið þeirrar réttarverndar sem nútímalöggjöf gerir ráð fyrir.

Hæstv. ráðherra vakti athygli á því að hún hefði margoft flutt mál í þá veru að leggja niður landsdóm og breyta lögunum um ráðherraábyrgð og taldi ýmsa ágalla í því sambandi.

Ég verð að játa, þótt ég sé ekki í því liði sem jafnan hrópar húrra yfir málflutningi hæstv. forsætisráðherra, að ég undraðist það mjög hver viðbrögðin voru við þessari ræðu. Hæstv. ráðherra gagnrýndi sannarlega nefndina. En hlýtur ekki nefndin að þola gagnrýni? Hlýtur ekki nefnd sem fjallar um mjög umdeilanlegt mál að þurfa að sæta einhverri gagnrýni? Er það þannig þegar verið er að ræða þessi mál að bara ein skoðun eigi að ríkja og menn eigi ekki að hafa nein önnur sjónarmið uppi? Er það þannig sem við viljum að pólitísk umræða fari fram í landinu, einhvers konar þöggunarstefna sé gagnvart þeim sem voga sér og dirfast að gagnrýna niðurstöðu nefnda, hvort sem það eru rannsóknarnefndir Alþingis eða þingmannanefndir, svo ágætar sem þær eru. Ég lauk miklu lofsorði á margt sem þingmannanefndin hafði í tillögum sínum.

Ég hafna því algerlega að hægt sé að tala um árásir þegar menn dirfast að gagnrýna mjög gagnrýnisverða hluti sem lúta að ákærum á fyrrverandi ráðherra. Ég er algjörlega ósammála þeim sem hafa uppi þá tilburði til ákæru.

Hæstv. forsætisráðherra var brugðið um vanþekkingu á löggjöfinni sem er mjög hart þegar um einstakling er að ræða sem hefur flutt hér mál sem lúta beinlínis bæði að löggjöfinni um ráðherraábyrgð og landsdóminn og hefur þar af leiðandi kynnt sér þessa löggjöf. Einn hv. þingmaður sem er orðlögð fyrir bæði yfirvegun og ró sakaði ráðherrann um að vera ekki í jafnvægi. Hv. þingmaður, formaður þingnefndarinnar, taldi ráðlegast að leggjast nú til hvílu og hafa yfir talnaþulur til að segja ekkert óvarlegt.

Ég var ekki sammála ræðu hæstv. forsætisráðherra að öllu leyti en taldi hins vegar að hæstv. ráðherra hefði verið málefnaleg í málflutningi sínum og þess vegna hefði ekki verið tilefni til að ráðast að henni með þessum hætti.

Ég læt nú lokið umfjöllun um þennan hluta málsins.

Ég spyr: Er einhver hér í þingsal Alþingis sáttur við og telur að löggjöfin annars vegar um ráðherraábyrgðina og hins vegar um landsdóminn sé til fyrirmyndar? Treystir sér einhver til að standa upp og segja: Þetta er sú löggjöf sem við viljum hafa um ráðherraábyrgð og landsdóm? Vitaskuld ekki. Öllum er ljóst að þetta er úrelt löggjöf sem hefur ekki staðist tímans tönn. Það er hins vegar rétt að við búum við þessa löggjöf. Þegar svo er komið að við deilum um grundvallaratriði sem lúta að þessari löggjöf, deilum um spurningar eins og mannréttindi, mannréttindakröfur, þá spyr ég: Hafa menn engar áhyggjur? Vorum við ekki að stofna sérstakt ráðuneyti í fyrra sem við kölluðum mannréttindaráðuneyti? Að vísu tek ég eftir að nú er verið að leggja niður það heiti ráðuneytisins. Er það í stíl við það sem hér er verið að gera, að menn treysta sér ekki lengur til að hafa það heiti á ráðuneytinu, mannréttindaráðuneytið? Það mun hverfa úr bókum Stjórnarráðsins eftir áramótin með löggjöf héðan frá Alþingi. Er það kannski í stíl við þennan nýja tíðaranda sem núna svífur yfir vötnum, ákæra á hendur fjórum fyrrverandi þingmönnum, að mannréttindatitillinn í ráðuneytinu verði látinn fjúka um áramótin?

Getur verið að við ætlum að fara í einhverja tilraunastarfsemi á þessu sviði, gá hvað við komumst langt, prófa vatnið, athuga hvað við komumst langt áfram áður en lamið verður á puttana á okkur fyrir að brjóta reglur um mannréttindi? Ætlum við að fara að heyja hér dómsmál í trausti þess að menn geti síðan áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu og til að gá að því hvort við höfum búið löggjöfina þannig úr garði að hún standist þá mælikvarða sem Mannréttindadómstóllinn setur? Við höfum þegar fengið ákúrur einu sinni þegar við urðum að breyta reglum sem mörkuðu skil á rannsóknar- og ákæruvaldinu, eins og við vitum. Ég held við ættum að gæta þess að fara ekki aftur í þann fúla pytt.

Þegar við ræðum þessi mál hljótum við auðvitað að spyrja grundvallarspurningarinnar sem er: Hver er ástæða bankahrunsins? Hv. formaður nefndarinnar spurði í ræðunni áðan hvort þetta hefði ekki allt verið fyrirsjáanlegt, hvort menn hefðu ekki alveg séð fyrir að hér stefndi í hrun. Auðvitað er rétt að mörg hættumerki voru á lofti — við vitum það. Það er ekki bara einhver eftiráspeki. Við gerðum okkur grein fyrir því. Í umræðunni var stöðugt talað um lausafjárvanda bankanna, ekki eiginfjárvanda bankanna — veitum því athygli að það var vísað til þess að bankarnir hér hefðu gríðarlega sterka eiginfjárstöðu en þeir byggju hins vegar við mikinn lausafjárvanda. Við vitum að það var verkefni bankanna, Seðlabankans, stjórnvalda, ráðherra og annarra, sem létu sig málið varða og báru á því einhverja ábyrgð, að freista þess að greiða úr þessum lausafjárvanda bankanna. Það er ekki eins og menn hafi flotið sofandi að feigðarósi. Það er ekki eins og menn hafi ekki aðhafst eitthvað á árinu 2008 og fyrr. Menn gerðu sér grein fyrir því að bregðast þyrfti við ákveðnum váboðum. Hins vegar er ekki hægt að horfa fram hjá því að myndin var ekki svona einföld, það voru ekki bara rauðu ljósin sem blikkuðu. Það voru líka græn ljós sem blikkuðu og gáfu til kynna að ýmislegt væri bara ágætt.

Í áliti Seðlabanka Íslands frá 8. maí 2008 stendur t.d., með leyfi virðulegs forseta:

„Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans enn sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert.“

Þetta var 8. maí 2008. Á miðju ári 2008 kom álit frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem ég mun sjálfsagt seint gleyma, þar sem stóð m.a. „að langtímahorfur fyrir hagkerfi Íslands væru öfundsverðar“. Greiningarfyrirtækin höfðu uppi lofsamlegt mat langt fram eftir ári. Þannig fengum við misvísandi skilaboð. Þrátt fyrir það var reynt að bregðast við á þeim tíma og stjórnvöld komu þar að á virkan hátt.

Hér hefur því hins vegar verið haldið fram hvað eftir annað úr ræðustól þingsins af til að mynda þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að einhvers konar pólitísk afskiptaleysisstefna hefði verið sem miðaði að því að sleppa öllu lausu og fylgjast ekkert með því sem verið væri að gera. Það er ekki rétt.

Ég rakti í ræðu minni fyrir nokkrum dögum þegar ég fjallaði almennt um skýrslu þingmannanefndarinnar, þá ágætu skýrslu, að pólitísk samstaða hefði verið um að hafa hér virkt og gott regluverk. Ég vakti t.d. athygli á því að svo seint sem í árslok 2006 hefði verið afgreitt á Alþingi frumvarp til laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi með síðari breytingum. Það vill nú þannig til að það þarf að flytja frumvarp á hverju ári um þessa hluti vegna þess að um skattlagningu á fjármálafyrirtæki er að ræða til að standa undir Fjármálaeftirlitinu. Slíkt frumvarp er sem sagt flutt á ári hverju. Það hefur farið inn í viðeigandi þingnefndir, í þessu tilviki í efnahags- og viðskiptanefnd. Það er ákaflega fróðlegt að skoða umræðurnar. Enginn ágreiningur var um aðalatriðin í því máli. Umræðan sem fór fram sneri ekki að því hvort verið væri að leggja of mikla eða of litla áherslu á aukið eftirlit með fjármálafyrirtækjum.

Í nefndaráliti segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja hefur aukist mikið á undanförnum árum. Á árinu 2005 stækkuðu íslensk fjármálafyrirtæki enn frekar og juku jafnframt hlutdeild starfsemi sinnar erlendis. Nefndin fagnar þessari þróun …“

Undir þetta nefndarálit rita m.a. þá hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson sem með öðrum orðum fögnuðu útrásinni, lýstu stuðningi sínum við með hvaða hætti væri verið að fjármagna eftirlitið með fyrirtækjunum og hvernig væri staðið að þeim málum. Svo koma menn trúir þeirri hugmynd að hægt sé að endurskrifa söguna ef röngum staðhæfingum sé nægilega oft haldið fram þegar það liggur einfaldlega fyrir að allt þingið stóð að þeirri stefnumótun sem lá til grundvallar um eftirlitið með fjármálafyrirtækjunum í landinu.

Þegar við ræðum þessar ásakanir og þær ákærur sem nú er verið að undirbúa og tilteknir hv. þingmenn í þingmannanefndinni hafa lagt fram verð ég að segja að mér finnst málatilbúnaðurinn vera veikur, svo ekki sé meira sagt. Ég ætla að fullyrða að í öðru málum, til að mynda sakamálum, yrði slíkum málum hent út af borðinu á fyrsta degi. Við vitum að það voru miklir lausafjárerfiðleikar í bönkunum en því verður ekki haldið fram með rökum, eins og ég hef þegar rakið, að ekkert hafi verið gert til að aðstoða bankana við að greiða úr því. Það ákæruskjal sem nú liggur fyrir gengur að því er virðist út á að þeir ráðherrar sem með málin fóru hefðu í raun og veru getað haft alla þræði í hendi sér og hefðu með ákvörðunum sínum getað stýrt þróun mála og það jafnvel svo seint sem á árinu 2008.

Var þetta svona einfalt? Við skulum ekki gleyma því að bankarnir voru sjálfstæðir lögaðilar. Þeir lutu stjórn og eigendavaldi og í ýmsum tilvikum voru það ekki tilskipanir ráðherrar sem þar giltu. Engu að síður var reynt að greiða úr málum með tilstuðlan stjórnvalda þannig að sú fullyrðing stenst ekki að hér hafi verið fullkomið andvaraleysi. Auðvitað getum við öll sagt, sérstaklega núna, að hægt hefði verið að gera enn betur. Það er auðvitað kjarni málsins sem við sjáum hér. Í þeim ákærum sem núna liggja fyrir er ekki gætt að orsakasamhengi. Ekki er lagt mat á hvort þær ákúrur sem ráðherrunum fyrrverandi eru veittar hafi og þá með öðru orðið til þess að bankakerfi okkar hrundi. Ekkert sem getur að líta í þeim rökstuðningi bendir í rauninni í þá átt. Þess vegna er verið að reisa ákærur í alvarlegu máli sem standast enga kvarða í þeim málum sem eru þó mun þýðingarminni en þetta. Þetta er því grafalvarleg brotalöm í þessu einstæða máli.

Því er haldið fram í ákæru að ráðherra hafi borið að staðreyna upplýsingar um stöðu mála og meinta áhættu. Þetta finnst mér sömuleiðis ótrúlegur málflutningur. Það kemur fram í viðtölum við ráðherra, m.a. í rannsóknarnefndarskýrslunni í andmælum þeirra og hjá embættismönnum sömuleiðis, að einmitt þetta var meginviðfangsefni stjórnsýslunnar, ráðherra sem embættismanna, að gera sér grein fyrir þeim váboðum sem voru á lofti og bregðast við þeim. Í rauninni er erfitt að gera sér í hugarlund að að baki þessum ákærum sé sanngjarnt mat á andmælum ráðherra gagnvart þessum ávirðingum ef farið hefur verið yfir sjónarmið annarra sem skrifuðu andmæli til rannsóknarnefndarinnar eða ræddu við hana.

Það er rangt að ekkert hafi verið gert til að draga úr umfangi bankakerfisins, til að mynda á árunum 2007 og 2008. Það er eins og þeir sem skrifuðu ákæruskjalið hafi t.d. ekki hirt um að kynna sér skýrslu bankasérfræðingsins Kaarlos Jännäris, þess finnska, frá 30. mars árið 2009 þar sem kemur fram að það hafi verið yfirlýstur vilji stjórnvalda allt frá síðari hluta ársins 2007 að draga úr umfangi bankanna. Það tókst að einhverju leyti. Sjálft bankakerfið dróst saman um 7% í evrum talið á árinu 2008. Auðvitað var það ekki nægjanlegt. Það blasir við hverjum manni.

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er rætt er auðvitað grafalvarlegt. Það er vandmeðfarið fyrir okkur öll, þingmenn, ekki síður pólitíska andstæðinga en pólitíska samherja. Það hlýtur að vera erfitt fyrir þá sem eru pólitískir andstæðingar og hafa látið þung orð falla á undanförnum árum að setja sig í þær stellingar að reyna að horfa hlutlægt á málið. Vitaskuld varpar þessi staða skýru ljósi á þá löggjöf sem við fjöllum um og er grundvöllur þeirrar ákæru sem nú er rædd. Það veldur því hins vegar ekki að við séum laus allra mála. Við þurfum að takast á við mál úr því að þau eru komin inn í þingið.

Ég er alveg sannfærður um að þær ákærur sem nú er verið að leggja fram eru rangar. Þær eru ósanngjarnar og þær eru ekki byggðar á þeim rökum eða forsendum sem eiga að vera nauðsynlegar til að takast á við mál af þessu tagi.

Kjarni málsins í mínum huga er þessi: Það mikla efnahagshrun sem varð á árinu 2008 hafði gríðarlegar afleiðingar fyrir okkur. Orsakanna er að leita í fyrsta lagi hjá bönkunum, eins og fram kemur rækilega í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndin hefur í rauninni gert að sínu. Í annan stað í ábyrgðarlausum útlánum af hálfu bankanna, krosseignatengslum eigenda bankanna, lán til eigendanna, lán sem þeir virtust lána hverjir öðrum svona nánast eins og skiptimynt hver fyrir annan og það að menn hefðu, að því er virðist, fremur litið á kaup á bönkum sem leið til að fá aðgang að fjármunum en nokkuð annað. Það sjáum við í rannsóknarnefndarskýrslunni, útlánin aukast til eigendanna um leið og eigendaskiptin eiga sér stað.

Það væri sannarlega hægt í anda eftiráspekinnar að segja að stjórnvöld hefðu getað staðið sig betur. Hvenær er svo sem ekki hægt að standa sig betur? Höfum við ekki oft litið í eigin barm og hugsað með okkur: Ef ég hefði nú gert aðeins betur hefðu hlutirnir farið betur. En að halda því fram að þeir ráðherrar sem stöðugt reyndu að bregðast við hinum hrikalegu vandamálum á árinu 2008 og lögðu þar nótt við dag langtímum saman séu nú orðnir sekir er fáránleg vitleysa, stenst enga skoðun og væri hent út af borðinu á fyrsta degi í íslenskum sakamálarétti. Íslenskur almenningur undrast dag hvern að á Alþingi Íslendinga sé helsta forgangsverkefnið talið vera að ákæra þessa tilgreindu ráðherra þegar eldar brenna á almenningi og atvinnulífinu og þeir spóka sig hnarreistir um allar koppagrundir heimsins sem hruninu ollu.