138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:01]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir þessar spurningar.

Svar mitt við fyrstu spurningunni er já. Ég tel að það hefði verið hægt að grípa til aðgerða á árunum 2007 og 2008, sérstaklega 2008 þegar upplýsingar um alvarlega stöðu fjármálakerfisins lágu fyrir, til að lágmarka eða draga úr því tjóni sem fyrirsjáanlegt var fyrir almenning. Ég lét þess reyndar getið í niðurlagi ræðu minnar, að ég tel að þar hafi verið gerð mistök og það eigi minn flokkur að horfast í augu við.

Varðandi aðra spurningu hv. þingmanns um ákæruliðina lét ég þess sömuleiðis getið að ég kysi að kveða ekki upp úr með neina niðurstöðu varðandi ákæruliðina í þessari umræðu. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef ekki komist að niðurstöðu. Ég hef valið þann kost að reyna að fara gaumgæfilega í gegnum þessi ákæruatriði og rýna eins og mér er best unnt þær röksemdir sem liggja að baki ákæruatriðunum. Ég tel að það sé skylda okkar og vil bera þá virðingu fyrir starfi þingmannanefndarinnar að við tökum niðurstöður hennar eða þeirra þingmanna sem standa bak við tillögurnar alvarlega og gefum okkur tíma til að gaumgæfa þær. Sú afstaða mín mun speglast í síðari umræðu um tillögurnar, hvenær sem hún á sér stað.

Þriðja spurningin um möguleg refsiskilyrði og hvort þau hafi verið uppfyllt gagnvart ráðherrum sem sátu í ríkisstjórn á fyrri hluta síðasta áratugar — ég tel að það væri nokkurt ábyrgðarleysi af mér að kveða upp úr með það hafandi ekki farið í neina faglega rannsókn á málsatvikum. Ég tel að það væri a.m.k. fullt tilefni til þess að skoða hvort (Forseti hringir.) svo hafi verið. Margar vísbendingar í skýrslu rannsóknarnefndar gefa manni (Forseti hringir.) tilefni til að ætla að svo gæti verið.