138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:03]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst frekar óvarlegt að tala með þessum hætti um hugsanlega ábyrgð verandi með þessi ströngu refsiskilyrði sem þó eru í húfi. Það er annað mál.

Í ræðu hæstv. forsætisráðherra í gær kom fram að hún vildi að gerðar yrðu lagabreytingar á þeim stutta tíma sem eftir lifir haustþings til að tryggja þau réttindi sem ýmsir telja að séu brotin. Reyndar skoðaði nefndin þetta mjög ítarlega á sínum tíma í janúar, febrúar, mars og leitaði til fjölda sérfræðinga um það. Niðurstaðan varð sú að þessi lagarammi stæðist mannréttindi. En er hv. þingmaður sama sinnis og formaður flokks hans og hæstv. forsætisráðherra um að ráðast í lagabreytingar núna eftir á til þess og kalla síðan fyrir viðkomandi ráðherra til yfirheyrslu og þar fram eftir götunum?