138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt athyglisverð. Hv. þingmaður spurði spurningar í ræðu sinni, sem ég held að sé mjög réttmæt: Hefur það fólk sem stendur til að ákæra í þessum þingsályktunartillögum fengið sanngjarna málsmeðferð og ef ekki, væri þá ekki betra að bíða? Mig langaði að biðja hana ef hún vildi vera svo væn að fara kannski nánar út í þetta, taka þessa hugsun aðeins lengra. Ef þessari spurningu er svarað neitandi, ef við komumst að þeirri niðurstöðu að það fólk sem stendur til að ákæra hafi ekki fengið sanngjarna málsmeðferð, hvernig vill þingmaðurinn þá sjá þetta spilað? Hvað á hún við með: Ef ekki, væri þá ekki betra að bíða?