138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held fyrir það fyrsta að þetta Tamílamál sem hv. þingmaður nefndi sé að mörgu leyti eðlisólíkt því máli sem við erum að ræða hér. Þar var um hreint og klárt lögbrot að ræða þar sem ráðherrann vísvitandi og af ásetningi braut gegn lögum sem hann vildi ekki framfylgja. Í þessu máli eru aðstæður allar aðrar. Það er hins vegar þannig, og ég ætla að leyfa mér að gera orð hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, að mínum, er hún lýsti mismuninum á þessum tveimur málum ágætlega í ræðu sinni í gær og fór yfir það nákvæmlega, að réttindi hins danska ráðherra voru miklu, miklu betur tryggð en réttindi þeirra svokölluðu sakborninga sem hér eru til umræðu. Hér á Íslandi gefa menn út ákæru, skjóta fyrst og spyrja svo.

Hv. þingmanni datt ekki einu sinni til hugar að kalla þetta fólk fyrir þingmannanefndina áður en hún lagði í þennan tillöguflutning. Þessir fyrrverandi íslensku ráðherrar höfðu nánast engan, eða engan, andmælarétt. Þeir höfðu ekki lögmenn á sínum snærum með sama hætti og danski ráðherrann. Öll málsmeðferðin sem hv. þingmaður stendur að er í flestum atriðum ólík því sem þekktist í Tamílamálinu og mun ólíklegra tel ég að Mannréttindadómstóllinn mundi nokkurn tímann fallast á þá málsmeðferð.