138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um ábyrgðarleysi og að enginn bæri ábyrgð. Nú vill svo til að margir þeir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem voru við völd eru hættir á þingi og jafnvel í pólitík. Hvernig taka menn pólitíska ábyrgð öðruvísi, hvernig vill hv. þingmaður sjá að menn taki pólitíska ábyrgð?

Síðan er spurningin um ábyrgð, í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem Alþingi setti á laggirnar á sínum tíma og var mjög merkilegt skref að mínu mati. Skýrslan var öldungis frábær, hún var svo skýr og berorð og hlífði ekki. Og er það ekki töluvert mikill dómur að í henni er kveðið á um vanhæfi ráðherra á mörgum stöðum? Mundi hv. þingmaður vilja sjá svoleiðis dóm um sig í opinberum plöggum? Er það ekki áfellisdómur?

Síðan var sett á laggirnar þingmannanefnd sem skilaði frábæru starfi varðandi sameiginlega þingsályktunartillögu sem hér hefur komið fram. Þar er aftur tekinn upp dómur um stjórnsýsluna og alveg sérstaklega ráðherra. Hvað vill hv. þingmaður meira? spyr ég. Mundi hann vilja sjá svoleiðis dóm um sjálfan sig? Og svo vil ég spyrja: Hvað hefði hv. þingmaður gert á þeim tíma sem hér er um að ræða ef hann hefði haft þá vitneskju sem sumir höfðu en ekki vitneskju um hrunið? Það vitum við fyrst núna eftir á, hv. þingmaður jafnt sem ég. Hann vissi ekki um hrunið fyrir fram. Hvað hefði hann gert? Hefði hann upplýst landslýð um það? Þá hefðu bankarnir farið á hausinn og þá væri hann núna ákærður fyrir að hafa sett þá á hausinn.