138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:12]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal spurningarnar. Þær voru nokkuð margar, ég mun reyna að svara þeim í þessari lotu og jafnvel hinni líka.

Ráðherrarnir sem hv. þingmaður vísaði til sögðu ekki af sér. Einungis einn ráðherra hefur sagt af sér, Björgvin G. Sigurðsson. Hinir voru hraktir af þingi af almenningi hérna fyrir utan þinghúsið í næstum því óeirðum sem brutust út. Þeir hættu vegna þess að ríkisstjórnin fór frá. Þeir hafa ekki sagt af sér.

Varðandi hvort ég vildi sjá nafn mitt í einhverjum skýrslum þar sem ég væri dæmdur vanhæfur — að sjálfsögðu mundi ég ekki vilja það. En ég mundi aldrei nokkurn tímann gera annað en að víkja af þingi ef ég stæði frammi fyrir svoleiðis. Og ég mundi aldrei nokkurn tímann gera annað en að krefjast þess að slíkt álit sem kæmi fram í skýrslu fengi eðlilega málsmeðferð og þá fyrir dómstólum. Það er það sem verið er að fara fram á hér, það er verið að fara fram á að athafnir eða athafnaleysi ákveðinna ráðherra fái viðeigandi lögboðna meðferð fyrir dómstólum. Það er eðlileg leið að fara með slíkt mál.

Alþingi og þingmenn eru ekki að áfellast ráðherra beint með ákvörðun sinni um slíkt heldur eru leggja þeir til að mál þeirra fái viðeigandi lögboðna meðferð fyrir landsdómi. Þannig eru lögin og þannig þarf þetta mál að fara ef það á einhvern tímann að nást eðlileg niðurstaða í það. Ég vona að ég hafi svarað spurningum hv. þingmanns.