138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:18]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom upp til að taka undir með hv. þingmanni þegar hann talar um að ábyrgð þeirra sem sátu þingflokksfundi hér í byrjun febrúar sé mikil. Í gærkvöldi hringdi til mín kjósandi Samfylkingarinnar og sagði mér frá því að ef þingflokkur Samfylkingarinnar hefði á einhvern hátt getað spornað við því að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra færu í ímyndarherferð til að lengja líf bankanna hefði þessi kjósandi einungis skuldað húsagrunn en ekki heilt verslunarhúsnæði. Ábyrgð þingflokks Samfylkingarinnar er mikil hvað varðar skuldsetningu þessa kjósanda flokksins.

Hv. þingmaður spyr jafnframt hvort Vinstri græn geti stutt ríkisstjórn þar sem er innan borðs flokkur sem ekki er tilbúinn að gera upp hrunið. Svar mitt við þeirri spurningu er að ég vil ekki blanda saman framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu. Við erum á þingi að taka afstöðu til þingsályktunartillagna sem koma frá þingnefnd og ég tel að ef þingið lýkur ekki málinu með atkvæðagreiðslu sé ástæða til að rjúfa þing og boða til kosninga.