138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við erum með til umfjöllunar þingsályktunartillögu um málshöfðun gegn ráðherrum sem sérstök þingmannanefnd hefur fjallað um undanfarna mánuði eða obbann af þessu ári. Við höfum fyrr á árinu, núna í september, fjallað um skýrslu þingmannanefndarinnar og þær tillögur sem hún hefur lagt fram í formi þingsályktunartillögu sem nefndin stendur öll sameiginlega að. Ég vil ítreka þakkir til þingmannanefndarinnar fyrir vel unnin störf og styrka forustu sem hefur verið í höndum hv. þm. Atla Gíslasonar og hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, varaformanns nefndarinnar.

Ég tel að nefndin og þeir hv. alþingismenn sem tóku þetta erfiða verk að sér fyrir hönd Alþingis hafi skilað mjög góðu starfi, þau eigi öll heiður skilið og þakkir fyrir að hafa tekist á hendur þetta erfiða, tímafreka verk. Það hefur örugglega tekið á, ekki bara í fjölda vinnustunda heldur líka andlega, að kljást á við þau erfiðu verkefni sem nefndinni voru falin, þær upplýsingar sem hún hefur þurft að vinna úr og þær niðurstöður sem hún hefur þurft að komast að.

Ég er þeirrar skoðunar að nefndin hafi öll starfað heiðarlega og tel engu máli skipta þó að hún hafi á lokametrunum skipst í hópa hvað varðar einn þátt málsins sem við fjöllum hér um. Hún hefur öll unnið samviskusamlega og heiðarlega í þágu Alþingis alls og á heiður skilið fyrir það. Mér finnst ástæða til að ítreka þakkir og stuðning við störf þingmannanefndarinnar. Það þýðir vitaskuld ekki að allir séu sammála öllum niðurstöðum sem frá henni koma. Það er mjög eðlilegt að um þær séu skiptar skoðanir og fullkomlega eðlilegt að menn reifi viðhorf sín, sjónarmið og skiptist á skoðunum í þingsal um þær niðurstöður sem nefndin komst að.

Í öllum meginatriðum má segja að í umræðum um þetta mál almennt séð hafi þingmenn lokið lofsorði á vinnu nefndarinnar og þær niðurstöður sem hún birtir í þingsályktunartillögu sem fylgir skýrslunni á þskj. 1501 og öll nefndin stendur að og að þar sé að finna greinargott yfirlit um þær endurbætur og úrbætur sem við þurfum að gera á starfsháttum okkar í stjórnsýslu, í stjórnmálunum, í fjármálakerfinu o.s.frv. Þar kemur líka fram þungur áfellisdómur yfir stjórnmálastarfi, stjórnmálastefnum, vinnubrögðum í stjórnmálum og stjórnsýslu undanfarin ár og í aðdraganda hrunsins sem má segja að hafi átt ríkan þátt í hruninu. Þar er líka undirstrikað að stjórnendur og helst eigendur fjármálafyrirtækja voru þeir sem mesta ábyrgð bera á hruninu. Ég tel mikilvægt að draga það fram til að við gleymum því ekki í þeirri umræðu sem fer fram núna um tillögur til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum. Það er sérstakt mál. Það er alveg satt sem sagt hefur verið að þetta er fordæmalaust mál, við höfum engin dæmi til að sækja í fortíðina um hvernig eigi að fara með mál af þessum toga. Í umræðunni hefur verið vikið að nokkrum þáttum þar sem niðurstöður meiri hluta nefndarinnar eru gagnrýndar, sumpart vegna þess að menn eru ósammála þeirri niðurstöðu sem nefndin kemst að, um að það séu meiri líkur en minni á sekt ráðherra, að þeir hafi gerst brotlegir við lög um ráðherraábyrgð og önnur lög eftir atvikum. En það hefur líka komið fram gagnrýni á umgjörðina um ráðherraábyrgðina og landsdóminn og ég vil víkja nokkrum orðum að því.

Þegar þessi mál voru hér til umfjöllunar þegar Alþingi ákvað að breyta lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, flutti forsætisnefnd frumvarp þar að lútandi og stóð einhuga að þeim breytingum. Þar var gert ráð fyrir því að sérstök þingmannanefnd, skipuð níu þingmönnum, ætti að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur um viðbrögð Alþingis við niðurstöðum hennar. Í athugasemdum eða greinargerð með þessu frumvarpi segir m.a., með leyfi forseta:

„Í núgildandi skipulagi þingsins er engri fastanefnda Alþingis falið að annast mál er tengjast eftirlitshlutverki Alþingis eða þeim markaður ákveðinn farvegur innan þingsins. Því þarf að sérsníða þá meðferð sem skýrslan fær. Ekki er talið heppilegt að fela einhverri fastanefnd þingsins eða forsætisnefnd þetta erfiða og umfangsmikla verkefni. Með kosningu sérstakrar nefndar gefst flokkunum jafnframt færi á því að velja sérstaklega þá fulltrúa sem verður trúað fyrir þessu mikilvæga verkefni. Í þessu sambandi telur forsætisnefnd afar æskilegt að þingflokkarnir komist að samkomulagi um skipan eins lista er boðinn verður fram þannig að tryggt verði að þeir eigi allir fulltrúa í þingmannanefndinni.“

Þetta var gert í góðu samkomulagi þingflokkanna. Hér var því markaður rammi að sérstakri löggjöf um að þingmannanefndin ætti að fjalla um þetta mál og koma með tillögur til þingsins. Það eru sterk rök fyrir því að nauðsynlegt sé, eins og vænta má þegar um þingsályktunartillögu er að ræða sem fá tvær umræður, verði ákveðið að vísa málinu til umfjöllunar í nefnd á milli umræðna, að málið fari til hinnar sömu þingmannanefndar vegna þess að um það var gerð sérstök samþykkt með sérlögum, að fela henni það verkefni. Ég lít svo á að þótt nefndin hafi ekki í öllum atriðum skilað sameiginlegri niðurstöðu sé um að ræða ítrekun nefndarálita frá fulltrúum sem að þeim standa, meiri hluta eða minni hluta eftir atvikum, og eins og með önnur þingmál fari þau aftur til hinnar sömu nefndar og um þau hefur fjallað. Þetta sjónarmið vil ég að komi skýrt fram af minni hálfu. Sömuleiðis kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Eftir atvikum kemur það enn fremur í hlut hennar“ — þ.e. nefndarinnar — „að móta afstöðu til ábyrgðar í málinu að því marki sem það er hlutverk þingsins.“

Um þetta gilda skýr lög, lög um ráðherraábyrgð og lög um landsdóm. Við kunnum að hafa á því ýmsar skoðanir hvort sú umgjörð sé rétt, hvort hún eigi að vera með einhverjum öðrum hætti, hvort einhverjir tilteknir þættir hennar eigi að vera öðruvísi en þetta er engu að síður sú umgjörð sem við búum við og höfum búið við um langt skeið, jafnvel þótt ekki hafi reynt á það fyrr. Það var öllum ljóst þegar þetta verkefni var sett á laggirnar.

Hafi menn haft miklar efasemdir um að sú málsmeðferð sem mælt er fyrir um í gildandi lögum stæðist mannréttindaákvæði stjórnarskrár eða annarra sáttmála eða almenna reglu um meðferð sakamála hefðu þau sjónarmið að sjálfsögðu þurft að koma fram strax í upphafi og þá hefði þurft að breyta þeirri lagaumgjörð ef áhugi hefði verið fyrir því á þeim tíma, en ekki eftir á. Mér finnst ekki rétt og ekki málefnalegt að koma nú og nota það sem rök fyrir því að ekki eigi að höfða mál á hendur tilteknum ráðherrum. Menn geta alveg haft þær skoðanir að ekki eigi að gera það og ekki sé tilefni til þess og ekki séu meiri líkur á sekt en sýknu, en að draga það fram að umgjörðin sé ekki nógu góð og reyna að gera hana tortryggilega og þar með störf þingmannanefndarinnar tel ég vera ómaklegt og mér finnst það ekki vera málstað þeirra til framdráttar sem telja að ekki sé tilefni til málshöfðunar.

Fjallað hefur verið um hvort sé sanngjarnt að höfða mál á hendur ráðherrum í ríkisstjórninni sem sátu frá 2007 til 2009 þegar rök eru færð fyrir því að ábyrgðin á hruninu liggi e.t.v. í höndum ráðherra sem voru á vettvangi fyrr, en ekki er gerð krafa um að mál verði höfðað gegn. Það er eins og við þekkjum vegna fyrningarreglna ráðherraábyrgðarlaganna. Við getum auðvitað líka haft þá skoðun, eins og hæstv. forsætisráðherra veifaði hér í ræðu í gær, að fyrningarreglurnar séu ósanngjarnar og að væntanlega, eins og ég skildi hana, þurfi að vera rýmri tími sem ábyrgðin nær til en fyrningarreglurnar gera ráð fyrir. Við getum verið sammála um það, en það er samt ekki sú lagaumgjörð sem við búum við og við verðum einfaldlega að horfa á hana eins og hún er. Við getum tekið nánast hvaða sakamál sem er sem kæmi upp og sagt: Ja, hér hefur orðið eitthvert tjón, ýmsir bera ábyrgð á því en það kann að vera að sök einhverra sé fyrnd að lögum og þá er ekki höfðað mál gegn þeim. Á þá að láta vera að höfða mál gegn þeim sem bera ábyrgð á því umrædda tjóni vegna þess að einhverjir aðrir kunna að sleppa vegna fyrningarreglna? Nei, það mundum við væntanlega aldrei gera. Ég tel þetta ekki heldur vera rök í málinu eða draga úr vægi þeirra niðurstaðna sem meiri hluti þingmannanefndarinnar hefur komist að.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nefndi í ræðu sinni að komið hefði til álita, eða átt að koma til álita, að breyta lögum þannig að þessari athugun eða vinnu þingmannanefndarinnar yrði breytt í sakamálarannsókn. Ég hef skilið það þannig að þingmannanefndin hafi farið mjög ítarlega í gegnum allar þessar vangaveltur í starfi sínu og að hún hafi sameiginlega komist að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að gera það. Nefndin hafi verið sammála um málsmeðferðina að öllu leyti og þótt hún hafi í lokin verið ósammála um niðurstöðuna hafi hún meira og minna verið sammála um málsmeðferðina, m.a. hvað þetta atriði varðar og að því er varðar skilgreininguna eða umræðuna um hvort mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu væru í heiðri höfð með þeirri málsmeðferð sem lögð er til.

Ég legg líka á það áherslu að mér finnst mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því, eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson kom inn á í andsvari áðan, að við erum í þingsal en ekki í réttarsal. Ef réttarhald á að fara fram á það ekki að fara fram hér í þingsalnum. Málarekstur fer fram fyrir dómi. Sækjendur og verjendur takast á fyrir dómi, leiða fram sín vitni, leiða fram sín málsrök og dómarinn hlýðir á þau og kveður úr um sekt eða sakleysi. Alþingi gerir það ekki. Okkar hlutverk, mikilvægt, vandasamt hlutverk, og skylda er að meta hvort við teljum að þeir ráðherrar sem nefndir eru í þingsályktunartillögunum hafi gerst sekir um brot á þeim lögum sem þar eru tiltekin. Gert er ráð fyrir að í þingsályktunartillögunni komi ákæruatriðin fram og ef tillagan er samþykkt haldi saksóknari sig við þann ramma sem í þingsályktuninni felst. En málareksturinn fer auðvitað ekki fram í sölum Alþingis. Mikilvægt er að hafa það í huga.

Ég skil mætavel að þetta mál sé mörgum þungbært. Það á líka við um mig vegna þess að ég þekki persónulega ýmsa þá sem hér eiga hlut að máli. Það er engu að síður skylda okkar að taka fyrst og fremst mið af almannahagsmunum, það eru þeir sem verða að ráða, öðrum sjónarmiðum verðum við að víkja til hliðar, jafnþungbært sem það kann að reynast okkur, hverju og einu.

Ég tel líka mikilvægt Alþingis vegna að við leiðum þetta mál til lykta á yfirvegaðan og málefnalegan hátt og gerum það á þessu þingi eins og lagt var upp með og allir stjórnmálaflokkar voru sammála um. Vitaskuld vitum við ekki hver afstaða einstakra þingmanna er til málsins efnislega þegar kemur til atkvæðagreiðslu en það verður auðvitað að hafa sinn gang, það er gangur lýðræðisins að menn geti haft skiptar skoðanir á því og það kemur í ljós þegar þar að kemur. Verst er fyrir alla aðila þessa máls, þingið, þingmannanefndina og þá einstaklinga sem tilgreindir eru í þessum þingsályktunartillögum, ef málið dregst á langinn eða ef menn ýta því á undan sér inn í framtíðina. Það er ekki góður kostur að mínu viti.

Ég tel, frú forseti, ástæðu til að ítreka af minni hálfu og fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við teljum þingmannanefndina hafa unnið störf sín vel. Við virðum að sjálfsögðu að skiptar skoðanir eru innan nefndarinnar um einstaka þætti málsins en við teljum að nefndin hafi unnið öll störf sín vel. Við gerðum sérstaka samþykkt um það á þingflokksfundi fyrr í dag sem ég ætla að leyfa mér að lesa hér, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs minnir á að Alþingi samþykkti samhljóða lög um skipan rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefnd sem tæki við niðurstöðum hennar. Þverpólitísk samstaða hefur fram til þessa verið um störf beggja nefndanna.

Þingflokkurinn þakkar þingmannanefndinni fyrir vel unnin störf, ber fullt traust til hennar og lýsir ánægju með vönduð vinnubrögð. Alþingi stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að sjö af níu nefndarmönnum leggja til að mál verði höfðað gegn fyrrverandi ráðherrum og verður nú að axla sína ábyrgð í málinu.

Trúverðugleiki Alþingis er í húfi að málið verði leitt til lykta á málefnalegan og lýðræðislegan hátt, án óþarfatafa og undanbragða.“