138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef alls ekki sagt það að ég teldi að menn ættu að kvitta fyrir fram upp á niðurstöðuna þó að menn hefðu orðið sammála um málsmeðferðina, alls ekki. Ég margítrekaði það í mínu máli að það væri að sjálfsögðu fullkomlega eðlilegt skoðanir að væru skiptar um niðurstöðuna. Mér finnst ekki að þær efnislegu athugasemdir sem menn hafa við niðurstöðuna eigi að byggja á gagnrýni á formið og málsmeðferðina sem menn voru sammála um í upphafi og þann lagaramma sem við vissum að sjálfsögðu að væri búinn um þetta mál. Þá hefðum við þurft að taka umræðuna fyrr.

Um efnislegu niðurstöðuna geta menn að sjálfsögðu verið ósammála og fært rök fyrir sínu máli. Hv. þingmaður segir hér að hann telji að formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafi m.a. fært rök fyrir því að það séu miklar veilur í þessum málatilbúnaði. Ég er þeirrar skoðunar að þingmannanefndin, meiri hluti hennar, hafi rökstutt mál sitt vel. Við getum verið ósammála um þetta en ég tel að þingmannanefndin hafi gert það. Ég tel að hún hafi svarað í sinni greinargerð öllum helstu (Forseti hringir.) gagnrýnisatriðum sem fram hafa komið.