138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka að ég lít svo á að þessi tillaga feli í sér vantraust á þingmannanefndina, sérstaklega af því að ekki hafi verið færð fyrir henni málefnaleg rök og út af þeim sérlögum sem gilda um nefndina. Þetta er líka andstætt öllum venjum sem gilt hafa hér á þingi, þ.e. nefnd sem hefur fjallað um mál á að fá það til sín. Hún getur hins vegar leitað umsagna annarra nefnda.

Þegar því er haldið fram í mín eyru að þingsályktunartillögur séu ekki afrakstur nefndarinnar heldur komi svífandi af himnum finnst mér það með ólíkindum vegna þess að þetta er afrakstur tuga funda í nefndinni. Afraksturinn er sá að skilað er tveimur þingsályktunartillögum úr nefndinni en Sjálfstæðisflokkurinn, fulltrúar Sjálfstæðisflokks í nefndinni, kusu að skila engu, ekki nefndaráliti eða neinu. (Gripið fram í.) Ég er algjörlega ósammála þessu. Miðað við lagagrunninn sem við byggjum á þarf að færa málefnaleg rök fyrir þessu, þ.e. sérlögin standa, venjur standa um þingsköp og annað slíkt þannig að þetta eru veik rök. Eina sem liggur að baki, að mínu mati, er að drepa málinu á dreif og koma því út fyrir (Gripið fram í.) haustþingið.