138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[17:47]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram að auðvitað tekur hver og einn þingmaður afstöðu til þess hvort leggja skuli fram og samþykkja ákæru á hendur fyrrverandi ráðherrum. En í því efni verður ekki horft til neins annars en þeirra grundvallarreglna sem gilda í refsirétti og þeirra grunnsjónarmiða að meiri líkur en minni séu á sekt viðkomandi ráðherra.

Það eru fjölmörg atriði í ræðu hv. þingmanns sem vekja spurningar en tímans vegna ætla ég að einbeita mér að einni meginspurningu. En ég verð þó að segja að það er grundvallarmisskilningur sem kemur fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams um stöðu skýrslu rannsóknarnefndarinnar og hvernig á hana skuli líta þegar metið er hvort gefa skuli út ákærur. Sá misskilningur er grafalvarlegur þegar hann kemur frá fulltrúa í þessari þingmannanefnd og því miður er það ekki í fyrsta skipti sem slíkur misskilningur kemur upp.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram, vegna þess að sá rökstuðningur vegur þyngst í tillögugerð þeirra, að fyrrverandi ráðherra Björgvin G. Sigurðsson er í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar um rannsóknarskýrsluna sérstaklega undanskilinn í vanrækslukafla í niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Jafnframt er í þeirri tillögu sérstaklega vikið að því að ekki sé hægt að leggja fram tillögu um ákæru á hendur hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni vegna þess, eins og segir í tillögunni, að mörk milli stórfellds gáleysis og gáleysis séu matskennd og að ráðherrann fyrrverandi eigi að njóta vafans.

Varðandi skoðun hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og Oddnýjar Harðardóttur um hin miklu mörk á milli stófellds gáleysis og almenns gáleysis, sem síðan er grundvöllur refsiábyrgðar, er ekki hægt að komast hjá því að spyrja hv. þingmenn hvort nákvæmlega sami rökstuðningur gildi ekki um alla hina ráðherrana þrjá. Hvernig stendur á því (Forseti hringir.) að í tillögu hv. þingmanna er einungis nefndur fyrrverandi (Forseti hringir.) hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson?