138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[18:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni Magnúsi Orra Schram fyrir samstarfið í nefndinni og fyrir þá áhugaverðu ræðu sem flutt var hér að framan. Eins og ég fór yfir í ræðu minni varðandi fyrri þingsályktunartillöguna, sem nefndin eða fimm nefndarmenn lögðu fram, hefur það komið fram af minni hálfu að ég hef enga sannfæringu fyrir því að ákæra beri fyrrum ráðherra ríkisstjórnar Geirs H. Haardes eins og lagt er til að gert verði. Fyrir því hef ég enga sannfæringu. Ég tel einfaldlega að saknæmisskilyrði séu ekki uppfyllt og ég tel ekki að þeir einstaklingar sem hér er lagt til að verði ákærðir og krafist refsiábyrgðar yfir hafi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.

Jafnframt tel ég ekki að grundvallarregla sakamálaréttarfars sem meiri líkur en minni séu á sakfellingu sé uppfyllt. Þá hef ég hreyft efasemdum við það varðandi form þessa máls og þá ágalla sem eru á því hvað varðar málsmeðferðina, þ.e. lagaumgjörðina sem gildir um landsdóm. Ég fór ítarlega yfir þetta í fyrri ræðu minni og mun ekki eyða meiri tíma þingsins í að fara yfir þau atriði í löngu máli.

Þar sem ég er á þeirri skoðun að ég tel að ekki beri að ákæra neinn af þessum ráðherrum styð ég heldur ekki þá þingsályktunartillögu sem rædd er hér þar sem lagt er til að þrír fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir. Í fyrri ræðu minni gafst mér ekki tími til að fara í efnisatriði ákæranna. Þau eru sambærileg að mestu leyti og ég ætla að leyfa mér að nota þessa ræðu mína til að fara aðeins ofan í þau atriði og mun síðan í seinni hluta ræðunnar víkja sérstaklega að því sem er ólíkt með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram og rædd og hinni sem rædd var fyrr í dag og undanfarna daga.

Það er rétt að þau gögn sem þingmannanefndin hafði í höndum til að vinna eftir, lesa og fara yfir er rannsóknarnefndarskýrsla Alþingis og þingmannanefndin var sett á fót til þess að fara yfir rannsóknarnefndarskýrslu Alþingis og móta viðbrögð Alþingis við henni, jafnframt að fara yfir ábyrgð að því marki sem það fellur undir hlutverk Alþingis.

Eins og alþjóð er kunnugt komst þingmannanefndin ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Ég og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir stöndum að hvorugri þeirri þingsályktunartillögu sem fæddist vegna starfa nefndarinnar.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er fjallað allítarlega um það með hvaða hætti rannsóknarnefnd Alþingis fer í það mat að meta vanrækslu og mistök. Það er skýrt tekið fram í 7. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að hér sé um stjórnsýslumat að ræða, það sé ekki verið að horfa til sömu sjónarmiða og þarf að gera ef verið er að meta ábyrgð ráðherra á grundvelli laga um ráðherraábyrgð. Þar fer fram annars konar mat, ábyrgðin er refsiábyrgð, en það sem rannsóknarnefnd Alþingis fjallaði um var einfaldlega að vinna eftir lögunum um rannsóknarnefnd Alþingis og fara í svokallað stjórnsýslumat. Þar sem það er einsdæmi, og í rauninni var rannsóknarnefnd Alþingis í hálfgerðu tómarúmi að öðru leyti en hvað varðar beint orðalag lagaákvæðanna sem fjalla um þetta atriði varðandi verkefni nefndarinnar, þá fór rannsóknarnefnd Alþingis ítarlega yfir það hvað fælist í því að meta mistök og vanrækslu í skilningi þeirra laga.

Það hefur ítrekað komið fram að hér sé ekki um sams konar mat að ræða. Hins vegar virðast þeir hv. þingmenn, sem fara í það að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að ákært verði, byggja að meginhluta til á sama mati og rannsóknarnefnd Alþingis. Þess vegna vekur það athygli, alla vega er í mínum huga algjörlega ljóst að þegar metin er ábyrgð á grundvelli stjórnsýslunnar erum við að tala um víðara mat en þegar við tölum um refsiábyrgð. Refsiábyrgð hlýtur alltaf að vera skilgreind þrengra en mat á því hvort mistök eða vanræksla hafi átt sér stað í skilningi stjórnsýslunnar. Ég tel að þetta sé algjörlega augljóst, enda eru viðurlögin sýnu alvarlegri þegar um er að ræða ákæru á grundvelli ráðherraábyrgðarlaga en niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um mistök og vanrækslu gerir ráð fyrir. Refsiramminn í ráðherraábyrgðarlögunum — þar er rætt um embættismissi, þar er rætt um sektir og fangelsi. Það er því ljóst, kristaltært í mínum huga, að matið hlýtur að vera þrengra þegar við erum að ræða um refsiábyrgð.

Þess vegna vekur það athygli að þeir þingmenn sem leggja hér fram að fyrrum ráðherrar verði ákærðir taki fleiri atriði inn sem kæruatriði heldur en rannsóknarnefnd Alþingis taldi ástæðu til að fjalla um að því leyti að menn hefðu sýnt af sér mistök eða vanrækslu. Það dæmi sem mig langar að taka og benda á er ákæruliður í c-lið þingsályktunartillagnanna beggja, þ.e. varðandi Árna M. Mathiesen og snýr að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag. Þarna er lagt til að mál verði höfðað á hendur fyrrverandi fjármálaráðherra vegna þess að þarna hafi farið fram eitthvert brot.

Það skýtur mjög skökku við að þetta sé tiltekið gagnvart Árna M. Mathiesen þar sem rannsóknarnefnd Alþingis kemst ekki að þeirri niðurstöðu að hann hafi sýnt af sér vanrækslu vegna þessa. Þetta var vissulega atriði sem rannsóknarnefnd Alþingis velti fyrir sér. Rannsóknarnefnd Alþingis sendi andmælabréf til fyrrum ráðherra og Árni M. Mathiesen sendi inn sín andmæli. Svo virðist sem rannsóknarnefnd Alþingis hafi tekið andmælin til greina að þessu leyti og tiltekur þetta atriði ekki sem eitt af þeim atriðum þar sem Árni M. Mathiesen ætti að hafa vanrækt skyldur sínar. Þess vegna vekur mikla athygli að þingmenn úr þingmannanefndinni, bæði þeir fimm sem leggja fram tillöguna sem rædd var fyrr í dag og jafnframt þeir tveir sem leggja fram þingsályktunartillögu sem við ræðum nú, tiltaka þetta atriði og leggja til að ákært verði fyrir það. Ég tel að það hafi ekki verið útskýrt á neinn hátt hvers vegna verið er að taka þetta atriði hér inn.

Þess utan tel ég mjög alvarlegt að menn íhugi það og leggi það fram að ákært skuli fyrir þennan lið, sérstaklega fyrrverandi fjármálaráðherra, vegna þess að hér er verið að ýja að því að það sé ríkisábyrgð á Icesave. Ég er algjörlega ósammála því. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna þetta ákæruatriði hefur ratað inn og þá sérstaklega ekki hvað varðar Árna M. Mathiesen.

Þá er það hitt atriðið sem er frábrugðið niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er þáttur fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Í ljósi þess að rannsóknarnefnd Alþingis telur að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi ekki sýnt af sér vanrækslu í starfi skýtur mjög skökku við að þeir þingmenn sem leggja fram þessa þingsályktunartillögu telji að hana beri að ákæra, sérstaklega með þeim rökstuðningi sem reynt er að halda fram í þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér og nú. Ég tel einfaldlega að sá rökstuðningur haldi ekki vatni. Ég vil ítreka það að ég tel að ekki beri að ákæra neinn af þessum fjórum einstaklingum sem eru til skoðunar, en engu að síður ætla ég mér að ræða þessi efnisatriði.

Ráðherrar í ríkisstjórn hafa ákveðnar embættisskyldur. Það fer eftir því á hvaða sviði þeir starfa. Ábyrgðarsvið þeirra fer eftir því hvaða verkefni þeir fara með. Þess vegna er mjög undarlegt að verið sé að færa inn í ákæruskjal og krefjast refsingar á hendur fyrrum ráðherrum fyrir að hafa sýnt af sér vanrækslu í starfsskyldum á einhverjum verkefnum sem þeir höfðu ekkert með að gera. Ég skil einfaldlega ekki hvernig reynt er að rökstyðja þetta. Mér er fyrirmunað að skilja það.

Þegar menn hafa lýst því yfir að þingmenn sem standa að þessu séu að vinna eftir niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis, það sé eina gagnið sem menn höfðu í höndunum, en fyrst lagt var upp með það að byggja eingöngu á þeirri skýrslu en ekki að fara í framhaldsrannsókn, eins og lögin gefa í rauninni til kynna að þingmannanefndin hefði getað gert, er mjög skrýtið að það sé þá ekki reynt að fylgja niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar, skoða hvað af niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar er hægt að heimfæra undir refsiákvæði og hvað ekki og fara síðan í þetta þrönga mat á því hvað er hægt að heimfæra undir refsiákvæði. Þessi rökstuðningur heldur því ekki vatni.

Það sem hér er á ferðinni tel ég vera mjög alvarlegt mál. Þær ákærur sem lagðar eru fram eru mjög víðar. Orðalagið er mjög ónákvæmt. Þegar við horfum til þeirra grundvallarsjónarmiða sem ákæranda ber að hafa í huga, þegar smíði ákæru er í burðarliðnum eða verið er að íhuga það hvort leggja eigi fram ákæru, verða menn að hafa það ávallt í huga að sakarefni verða að vera skýr þannig að sakborningur nái að verja sig, sakborningur viti það hvað það er nákvæmlega sem honum er gefið að sök svo hægt sé að grípa til varna. Þetta er grundvallarregla í réttarríkinu, grundvallarregla og grundvallarréttindi sem sakborningar eiga. Þess vegna eru ítarleg ákvæði í lögum um meðferð sakamála um það hvernig ákæra eigi að líta út og hvaða skýrleika að kröfu eru gerðar til ákæruskjala.

Hér er á ferðinni skjal sem er það óljóst orðað og ónákvæmt að það er ekki með nokkru móti hægt að ímynda sér við hvað er átt. Ég ætla að leyfa mér að grípa aðeins niður í kafla I, þ.e. A. I. þar sem lagt er til að Geir H. Haarde verði ákærður fyrir brot frá og með tímabilinu frá febrúar 2008 fram í októberbyrjun. Hér segir, með leyfi forseta:

„Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga …“

Hér er ekki ljóst hvað er átt við. Hefðu menn ætlað að gera skýra ákæru hefðu menn þurft að tiltaka hvaða löggjöf er það sem hefði átt að setja. Hvaða almennu stjórnvaldsfyrirmæli voru það sem skorti á að gefin yrðu út? Hvaða stjórnvaldsákvarðanir eru það sem átti að taka? Hér er ekki gerð nein tilraun til þess að kortleggja það. Það er einfaldlega vegna þess, að mínu mati, að það lá ekkert fyrir og liggur ekkert fyrir um það hvað menn hefðu átt að gera. Það liggur hins vegar fyrir ef menn lesa rannsóknarnefndarskýrslu Alþingis og fara yfir þau andmæli sem send voru til rannsóknarnefndar Alþingis og eins þau bréf sem þingmannanefndinni bárust var gripið til ýmissa úrræða, það var gripið til ýmissa aðgerða. Það er hins vegar algerlega ljóst að mönnum sem voru hér við stjórnvölinn var ekki kunnugt um hversu mikil hætta var á ferðinni. Mönnum var ekki kunnugt um hversu geigvænlegar afleiðingar alþjóðlega bankakreppan yrði fyrir íslenskt samfélag. Menn höfðu ekki hugmynd um að fall bandaríska bankans Lehman Brothers mundi hafa þessi áhrif á samfélag okkar.

Ég tel og ég hef fulla sannfæringu fyrir því að allir þeir sem komu að íslenskri stjórnsýslu síðustu mánuðina fyrir hrun hafi unnið af fullum heilindum og fullri einurð að því að koma landinu í gegnum hugsanlega efnahagskreppu án stóráfalla. Það lágu fyrir ýmis opinber gögn af hálfu endurskoðunarfyrirtækja, af hálfu íslenskra opinberra stofnana og matsfyrirtækja um að staða bankanna væri sterk, svo ekki sé minnst á skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Stjórnvöld gripu til ýmissa aðgerða. Stjórnvöld voru að leita leiða til að efla gjaldeyrisvarasjóðinn með lántökum á vegum ríkissjóðs og gjaldmiðlaskiptasamningum milli Seðlabanka Íslands og annarra seðlabanka. Þetta liggur fyrir.

Unnið var að því á vegum viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins að flytja innlánastarfsemi Landsbankans í Bretlandi og Hollandi úr útibúi í dótturfélög. Það var unnið að því.

Áhersla var lögð á það við bankana að þeir mundu draga úr umsvifum sínum og minnka efnahagsreikning sinn. Forsætis- og fjármálaráðuneytið unnu að því að tryggja Íslandi aðild að samstarfi Evrópuríkja um fjármálastöðugleika.

Unnið var að því að bæta upplýsingamiðlun til erlendra aðila um íslensk efnahagsmál og bankana.

Reynt var að bregðast við lausafjárvanda bankanna með ýmsum aðgerðum Seðlabanka Íslands. Þetta dugði því miður ekki til. Þær aðgerðir dugðu ekki til, það var m.a. vegna þess að menn vanmátu hversu vandinn var mikill.

Ég tel að það hafi enginn aðili hér á landi sem og erlendis áttað sig á því hvað væri fram undan fyrir íslenskt efnahagslíf. Ég fullyrði það. Enginn gat bent á það.

Þess vegna skil ég stjórnvöld sem á þeim tíma brugðu á það ráð að reyna að styðja við bankana í ljósi allra þeirra upplýsinga sem komu fram frá þeim aðilum sem stjórnvöld hingað til hafa getað treyst á. Stjórnvöld hafa hingað til getað treyst því að menn segi þeim satt, að stjórnendur bankanna geri það.

Það kemur hins vegar skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að það eru bankarnir sjálfir, stjórnendur og helstu eigendur bankanna, sem bera meginábyrgð á því hvernig fór. Ég skil að stjórnvöld hafi reynt að styðja við bankana til að komast í gegnum erfiðleikana sem voru álitnir á þeim tíma tímabundnir erfiðleikar. Það verður að sýna þeirri afstöðu stjórnvalda skilning að ekki var fjallað um alvarlega stöðu bankanna á opinberum vettvangi vegna þess að starfsemi banka er viðkvæm og markmið stjórnvalda var að taka ekki ákvarðanir sem mundu valda meira tjóni en óhjákvæmilegt var.

Opinberir aðilar reyndu að afstýra því að illa færi án þess að orsaka áhlaup á bankana. Það er mjög auðvelt fyrir okkur sem búum að því að eiga rannsóknarnefndarskýrslu Alþingis í mörgum bindum, á mörg þúsund blaðsíðum, þar sem rakið er lið fyrir lið hvað gerðist í raun og veru, að standa hér og gagnrýna það.

Við eigum að læra af mistökunum. Við eigum að hindra það með öllum okkar krafti að slíkt geti gerst aftur. En við verðum alltaf að líta til þess hvaða upplýsingar það voru sem stjórnvöld þess tíma höfðu í höndunum, í hvaða andrúmslofti stjórnvöld unnu, og líta á þær ákvarðanir sem teknar voru með þeim gleraugum. Vissulega voru mistök gerð. Það voru ekki allar ákvarðanir réttar, en við verðum að líta til þeirra atburða með sanngirni og hafa í huga að það er auðvelt að dæma nú, þegar við stöndum hér í yfirveguðu andrúmslofti með mikið af upplýsingum í höndunum. Stjórnvöld vanmátu hættuna sem vofði yfir vegna þess fyrst og fremst að þeim var ekki ljóst hversu mikil veiking bankanna innan frá var.

Það að halda því fram að ráðamenn þjóðarinnar og þeir ráðherrar sem lagt er til að verði ákærðir hafi af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi sýnt af sér embættisbrot þar sem beri að ákæra og krefjast refsingar fyrir tel ég vera fjarstæðu þegar maður horfir á málið í heild sinni og af sanngirni.

Það hefur verið fjallað nokkuð um skýrleika þeirra refsiheimilda sem hér eru til skoðunar. Mjög margir fræðimenn hafa bent á atriði í ráðherraábyrgðarlögunum sem eru ekki nægjanlega skýr til þess að teljast fullgild refsiákvæði, eða refsiákvæði sem standast skoðun nútímans og þeirrar þróunar sem orðið hefur. Ég tel að okkur beri að læra af þeirri yfirferð sem þingmannanefndin hefur farið í á undanförnum mánuðum. Við höfum öll í sameiningu lagt það til að þessi lög verði endurskoðuð. Sú grein ráðherraábyrgðarlaganna sem helst hefur verið rætt og ritað um er 10. gr. Það hefur verið fjallað um að 10. gr. sé ekki nægjanlega skýr. Það eru fjölmargir aðilar sem hafa gert það.

Í skýrslu nefndar um starfsskilyrði stjórnvalda sem m.a. Páll Hreinsson og fleiri áttu sæti í er fjallað um lög um ráðherraábyrgð og lagt til að þau séu endurskoðuð. Þar er vísað til þess að kröfur til forms og efnis refsiákvæða hafa aukist undanfarin ár einkum vegna þróunar í mannréttindamálum. Bent er á að það sé almennt gert að skilyrði fyrir beitingu refsiákvæða að þau séu skýr og aðgengileg.

Vissulega liggur það fyrir að fleiri fræðimenn hafa komist að skýrari niðurstöðu varðandi a-lið 10. gr. en þó hefur verið líka fjallað um það að b-liður sé ekki nægjanlega skýr. Það er einfaldlega vegna þess, og það hafa allir rekið sig á sem hafa verið að vinna í þessum málum, bæði þingmenn í þingmannanefnd og eins væntanlega þeir sérfræðingar sem hafa verið að vinna við þetta, að það er erfitt að heimfæra brot undir b-lið 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna. Það er einfaldlega þannig.

Vegna þess að það hefur verið í umræðunni og ég hef verið spurð að því héðan úr ræðustól hvort það komi aldrei til þess að það beri að láta reyna á ráðherraábyrgð, það komi aldrei til þess að uppi verði tilvik þar sem hægt er að láta reyna á þau ákvæði, þá getum við vissulega ímyndað okkur það þegar eitthvert skýrt brot verður, þegar ráðherra t.d. neitar að framfylgja einhverjum ákveðnum lögum er hægt að heimfæra það undir refsiákvæði. En þegar við erum að tala um matskenndar ákvarðanir sem eru teknar undir mikilli pressu og eru teknar á grundvelli upplýsinga sem síðar kemur í ljós að eru rangar, þá er einfaldlega mjög erfitt að heimfæra slíkt undir ákvæði ráðherraábyrgðarlaganna.

Nefndin hefur í sameiningu lagt til að lögin verði endurskoðuð og ég tel að full þörf sé á því. Hins vegar er ljóst að þetta er umhverfið sem við vinnum við í dag og þingið verður einfaldlega að taka afstöðu til þess hvort það vilji að þessar þingsályktunartillögur nái fram að ganga eða ekki.

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af því í ljósi þess sem ég hef farið yfir að verið sé að kasta út víðu neti. Hér sé verið að kasta út slíku ákæruskjali að það sé það vítt að það nái utan um allt það sem hugsanlega gæti komið upp í þeirri rannsókn sem á eftir að fara fram. Umhverfið og lagaumhverfi landsdómsins er þannig að rannsókn málsins á eftir að fara fram. Það er einfaldlega ekki boðlegt að kasta út það víðri ákæru, að orðalagið sé það óskýrt og loðið að það grípi hugsanlega allt sem gæti komið upp í meðförum saksóknara Alþingis verði hann kosinn. Það samrýmist ekki sakamálaréttarfarinu og það samræmist ekki meginreglum réttarríkisins og það samrýmist ekki þeirri málsmeðferð sem mannréttindasáttmáli Evrópu leggur til.

Þeirri spurningu hefur verið velt hér upp í umræðunni af hálfu nokkurra þingmanna hvort saksóknari Alþingis geti gefið út nýja ákæru og eigi að gefa út nýja ákæru þegar hann kemst að raun um að ekki sé hægt að ganga fram með ákæru sem er jafnvíð og þessi sem lögð er fram hér í dag. Ég segi og það er mín skoðun að saksóknari Alþingis geti ekki gert það. Menn hafa haldið því fram að saksóknarinn gæti ekki þrengt ákæruna en hann gæti sleppt nokkrum ákæruliðum og skilið eftir það sem gæti hugsanlega gripið einhver atriði. Ég tel einfaldlega að þetta sé stórhættulegur málflutningur. Miðað við lagaumhverfið eins og það er þá ber Alþingi, ætli það á annað borð að ákæra, að leggja fram skýrt ákæruskjal og það ákæruskjal muni standa út þann feril sem málinu er ætlað. Það er einfaldlega verið að líta til þess að ef ske kynni að málið gengi fram hér í þinginu verði að líta til þess að sakborningarnir eigi líka einhver réttindi. Ég hef áhyggjur af því að menn horfi ekki nægjanlega til þess.

Frú forseti. Hægt er að ræða lengi um þessi mál og hægt er að fara í einstaka ákæruliði ákæruskjalanna mun ítarlegar en ég hef náð að gera á þessum stutta tíma, sérstaklega þegar maður hefur unnið í þessu máli í marga mánuði og sem vikum skiptir þá er svo margt sem manni liggur á hjarta. En þetta er hin almenna mynd. Ég hef áhyggjur af því að hér sé verið að kasta út víðu neti. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að þeir fyrrverandi ráðherrar sem hér er lagt til að ákærðir verði hafi framið refsiverð brot af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi. Þess vegna stend ég ekki að þessum tillögum og mun ekki styðja það (Forseti hringir.) að þessi mál nái fram að ganga.