138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[18:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í garð okkar nefndarmanna og tek mér það bessaleyfi að gera það fyrir hönd allrar nefndarinnar. Hv. þingmaður náði að halda heila ræðu án þess að gefa okkur upp afstöðu sína í málinu. Ég ber virðingu fyrir því að hv. þingmaður sé enn að hugsa málið, maður hefur þá tækifæri til þess að sannfæra hann með rökstuðningi.

Mig langar að kanna afstöðu hv. þingmanns til þeirrar tillögu sem fram kom hér fyrr í kvöld varðandi til hvaða nefndar málið ætti að fara á milli umræðna. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi myndað sér afstöðu til þess atriðis. Það eru uppi ólík sjónarmið um hvort það eigi að fara aftur til þingmannanefndarinnar eða hvort það eigi að fara til allsherjarnefndar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því mér fannst mjög athyglisverð þau ummæli hans að hér væru önnur mál sem þyrfti að ræða — ég er sammála hv. þingmanni um að brýnt sé að ræða fjölmörg önnur mál hér í þinginu — hvort hann telji, ef umræðunni lýkur í kvöld og málið fer til nefndar og við eigum hér einhverja daga, að þingið eigi að starfa áfram og taka önnur mál til meðferðar. Þar gætum við nefnt skuldavanda heimilanna. Þar gætum við nefnt mál er varða gengislánin og þá lagasetningu sem liggur í loftinu. Við gætum rætt um hæstaréttardóminn sem féll í vikunni varðandi embættisfærslur umhverfisráðherra um skipulagsmál í Flóahreppi sem ég tel að sé mjög brýnt að ræða í þinginu vegna þeirra ummæla sem hafa fallið hér fyrr. Jafnframt hafa komið fram beiðnir um fundi í fjölmörgum nefndum þingsins. Er nokkuð því til fyrirstöðu að sú vinna og þær nefndir starfi? (Forseti hringir.)