138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[18:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hef ég ekki enn þá heyrt þau rök að vísa eigi málinu til einhverrar annarrar nefndar en þingmannanefndarinnar. Varðandi störfin í þinginu meðan málið fer til einhverrar nefndar finnst mér mjög eðlilegt að þingið starfi áfram vegna þeirra stóru og brýnu mála sem bíða úrlausna. Hins vegar verðum við líka að átta okkur á því að það kann að vera að einfaldlega sé betra að gera stutt hlé fyrir næsta þing til að við komum betur undirbúin og málin fái betri undirbúning og þingmönnum gefist tækifæri til að vinna heimavinnuna sína fyrir nýtt þing, koma efld til leiks og flytja hvert snilldarmálið á fætur öðru. Það getur vel verið að það sé betra. Ég skorast ekki undan því, hv. þingmaður Unnur Brá Konráðsdóttir, að vera hér og vinna, eins og ég veit að við öll gerum ef við teljum þess þurfa. Við þurfum hins vegar að fara vandlega yfir hvort við getum þjónað íbúum landsins betur með því að taka þessi mál til afgreiðslu.

Ég vil nota tækifærið í þessu andsvari og segja að auðvitað gremst manni, hv. þingmaður, það mikla úrræðaleysi núverandi ríkisstjórnar varðandi úrlausn á vanda heimila og samfélags, á vanda fyrirtækja og atvinnulífs. Það er algjört úrræðaleysi í gangi. Við heyrum enn og aftur af stórum tölum úr fjárlögum varðandi niðurskurð og skattahækkanir og annað en mér finnst algjörlega skorta að við horfum fram á við, hvernig við ætlum að auka tekjur samfélagsins og þar af leiðandi fyrirtækjanna og fólksins um leið. Mér finnst mjög sérstakt að ekki skuli vera meira einblínt á þessa hluti.

Frú forseti. Ég ætla nú … nei, kem að því í seinna andsvari mínu.