138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[18:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og heyri að hann er fús til verka og ekkert þreyttur eftir haustþingið. Ég tel einmitt að mjög mikilvægur punktur hafi komið fram í máli hv. þingmanns. Það er að við verðum að horfa til framtíðar og einbeita okkur að því af fullum krafti að sýna þjóðinni fram á að þingmenn hafi framtíðarsýn, þingmenn þjóðarinnar sjái að það gengur ekki að horfa endalaust í baksýnisspegilinn þótt mikilvægt sé að læra af reynslunni. Ég tel að við eigum að nota þá miklu vinnu, tíma og peninga sem hefur farið í þetta uppgjör, þ.e. rannsóknarnefnd Alþingis og síðan þingmannanefndina og þá skýrslu sem þar liggur til grundvallar, til að byggja á til framtíðar. Við verðum að nota það til að segja: Hér gerum við upp við fortíðina. Nú er það frá. Hér eftir ætlum við okkur að horfa til framtíðar, segja íslensku þjóðinni hver framtíðarsýn okkar er.

Hvernig ætlum við að byggja upp til framtíðar? Ætlum við að gera það með framtaki einstaklingsins eða ætlum við að gera það með því að hækka skatta endalaust? Ég tel hið fyrrnefnda vera það sem við eigum að horfa til og ég vonast til þess að það verði ofan á. Ég hef áhyggjur af því að það sé ekki að gerast í íslensku samfélagi. Ég hvet hv. þingmann sem ég veit að er mikill baráttumaður fyrir atvinnulífinu að sjá til þess að við höldum uppi öflugum málflutningi og klárum að gera upp fortíðina, horfum til framtíðar og sýnum fólki fram á það að hér sé björt framtíð og gott að búa.