138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[19:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum þar sem flutningsmenn, sem ég sakna að séu ekki í salnum, hv. þm. Magnús Orri Schram og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, klufu sig úr meiri hluta þingmannanefndarinnar sem lagði til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir og lögðu fram tillögu um að þrír ráðherrar í fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn Íslands yrðu ákærðir.

Ég ætla ekki að endurtaka ræðuna sem ég flutti við umræðu um fyrri þingsályktunartillögu þar sem lagt var til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir heldur ætla ég að fjalla um mismuninn á tillögunum tveim. Hann er sá að fulltrúar Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni ákváðu að draga fyrrverandi viðskiptaráðherra, yfirmann bankamála, út úr ákæruferlinu.

Ég vil, líkt og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði í upphafi ræðu sinnar, taka fram að ég tel ekki að ákæra eigi Björgvin G. Sigurðsson frekar en hina þrjá ráðherrana sem nefndir eru til sögunnar. Ég tel ekki að háttsemi hans sé á nokkurn hátt orsök bankahrunsins, hvorki að hann hefði getað komið í veg fyrir það með aðgerðum né sé aðgerðaleysi hans um að kenna. Ég vil ítreka þetta vegna þess að ég verð að fara yfir rökstuðning þingmannanna hv. Oddnýjar G. Harðardóttur og Magnúsar Orra Schrams, sem mér finnst hreint út sagt fáránlegur svo ég segi það beint út. Mér finnst hann fáránlegur vegna þess að ef maður les þingsályktunina þar sem hv. þingmenn fara yfir það að ráðherrann fyrrverandi hafi ekki vitað neitt, hafi ekki frétt neitt, hafi ekki verið boðaður á fundi, hafi ekki sótt fundi, hafi ekki fengið tillögur afgreiddar í ríkisstjórn og að upplýsingum hafi verið, eins og kom fram í máli framsögumanns, haldið markvisst frá honum og hann útilokaður frá upplýsingum um hina og þessa hluti.

Þegar maður les önnur gögn málsins sem koma fram í rannsóknarskýrslunni og í andmælum t.d. fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sést að rök þingmannanna standast enga skoðun. Í fyrsta lagi, ef maður ætlaði að vera grimmur og segja að einhver einn bæri stjórnsýslulega ábyrgð á falli bankanna og hafi með aðgerðum eða aðgerðaleysi átt sök á því, hlyti það að vera hæstv. bankamálaráðherra, vegna þess að stjórnsýslulega ábyrgðin á bönkunum var hans. Að hann vissi ekki af hlutum sem hann átti að vita um og það að hann hafi ekki fengið upplýsingar frá starfsmönnum sínum sem sátu í ýmsum ráðgjafarnefndum, samráðshópum og viðbragðshópum, eins og skýrt kemur fram í rannsóknarskýrslunni, það væri kannski, ef maður hefði einbeittan vilja til að klína þessu bankahruni á einhvern einn einstakling, þá væri það að sjálfsögðu ráðherrann sem fer með málaflokkinn. Ég ítreka að ég er ekki að því. Ég tel að það hafi ekki skipt sköpum á hvaða fundum viðkomandi einstaklingur var eða hvað hann vissi. Því miður held ég að bankarnir hefðu hvort eð er fallið.

Fyrir utan það vil ég fara yfir andmæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þar sem fullyrðingar þingmannanna standast ekki skoðun.

Hér segir í andmælum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þegar hún fjallar um hvaða fundi hún sótti og hvaða upplýsingar hún hafði, þá segir hún, með leyfi forseta:

„Ég tel því rétt að upplýsa þingmannanefndina um að ég ræddi það sem kom fram á þessum fundum með stjórn Seðlabankans, m.a. á eftirfarandi fundum í Samfylkingunni: Þingflokksfundi Samfylkingarinnar 11. febrúar 2008, þingflokksfundi Samfylkingarinnar 14. febrúar 2008, fundi með ráðherrum Samfylkingarinnar 17. mars 2008, fundi með viðskiptaráðherra, formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins og aðalhagfræðingi Seðlabanka Íslands 23. mars 2008, fundi með ráðherrum Samfylkingarinnar 7. apríl 2008, fundi með hagráði Samfylkingarinnar 17. apríl 2008, fundi með hagráði Samfylkingarinnar 18. júní 2008.“

Síðan heldur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir áfram:

„Ég hef setið undir nokkru ámæli fyrir að hafa ekki boðað viðskiptaráðherra til fundanna í forsætisráðuneytinu með stjórn Seðlabankans. Um þetta er það að segja að umræddir fundir voru upplýsingafundir boðaðir af forsætisráðherra og það var á hans valdi og verksviði að ákveða hverjir ættu erindi á þá. Ég tók aldrei fram fyrir hendurnar á honum, hvorki í þessum tilvikum né endranær, og boðaði ekki fólk á fundi í forsætisráðuneytinu.

Hvað sem því líður er ljóst, eins og sjá má af ofangreindri upptalningu funda, að ég gerði viðskiptaráðherra, öðrum ráðherrum og helstu trúnaðarmönnum Samfylkingarinnar á sviði efnahagsmála efnislega grein fyrir því sem ég vissi og kom fram á fundunum með stjórn Seðlabankans.“

Þarna segir fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra beinum orðum að það sem hún vissi sagði hún viðskiptaráðherra sem og öðrum trúnaðarmönnum Samfylkingarinnar. Röksemdir hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og Oddnýjar G. Harðardóttur standast ekki skoðun. Ef þau telja ástæðu til þess að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir vanrækslu eða stórkostlegt hirðuleysi en ekki Björgvin G. Sigurðsson er sú ástæða ekki lögfræði. Hún er ekki studd neinum haldbærum rökum, heldur pólitískum. Ég leyfi mér að fullyrða það vegna þess að það eru engin rök fyrir því að taka annað þeirra út með þessum hætti miðað við það sem kemur fram í gögnunum. Ég ítreka það, vegna þess að ef einhver hefur dottið inn í þessa ræðu og hlustað á mig ræða um fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra, að ég er ekki þeirrar skoðunar að það beri að ákæra hann frekar en aðra ráðherra. Að mínum dómi er ekki hægt að halda því fram að aðgerðir þeirra eða aðgerðaleysi hafi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi orðið til þess að íslenska bankakerfið fór á hliðina.

Þessi þingsályktunartillaga þingmannanna tveggja sýnir það svart á hvítu að það sem að baki liggur er ekki lögfræði heldur pólitík. Í þessu máli eigum við að horfa á lögfræðina. Við eigum að horfa á réttarreglurnar sem við búum við, við eigum að horfa á það hvað við getum lagt til grundvallar og dregið þær ályktanir að ef ákærur verða samþykktar gera menn það vegna þess að þeir trúa að ráðherrarnir verða sakfelldir. Ég hef enga trú á því. Það er það eina sem liggur til grundvallar, ekki reyna að halda því fram að menn beri ekki ábyrgð vegna þess að þeim voru ekki sagðir hlutirnir. Það er ódýrt.