138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með sérstökum lögum nr. 142/2008 og með breytingum sem gerðar voru í desember 2009 ákvað Alþingi að setja á laggirnar sérstaka nefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og móta viðbrögð Alþingis við niðurstöðum nefndarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu sem forsætisnefnd flutti og stóð öll að segir, með leyfi forseta:

„Í núgildandi skipulagi þingsins er engri fastanefnda Alþingis falið að annast mál er tengjast eftirlitshlutverki Alþingis eða þeim markaður ákveðinn farvegur innan þingsins. Því þarf að sérsníða þá meðferð sem skýrslan fær. Ekki er talið heppilegt að fela einhverri fastanefnd þingsins eða forsætisnefnd þetta erfiða og umfangsmikla verkefni.“

Í lögunum sjálfum er síðan tekið fram að það sé verkefni þingmannanefndarinnar að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar og eigi að skila áliti til Alþingis. Ég tel að samkvæmt þessu og samkvæmt þingsköpum og þinghefðum, m.a. með vísan í 3. mgr. 23. gr. þingskapa, beri að vísa þessu máli til (Forseti hringir.) þingmannanefndarinnar aftur og að annað fæli í sér vantraust á hennar störf.