138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni og Sigurði Kára Kristjánssyni sem í stuttu máli hafa gert ágæta grein fyrir rökunum fyrir því að málið eigi frekar að ganga til allsherjarnefndar en þingmannanefndar.

Það má líka spyrja hvort þingmannanefndin hafi ekki, miðað við lögin sem hún starfar eftir, skilað sínu starfi með því að skila þeirri skýrslu sem hér var lögð fyrir þingið fyrir hátt í tveim vikum, hvort það sé ekki eðlilegt að túlka lögin þannig að þar með hafi hún lokið verki sínu. Spyrja má hversu lengi eigi að halda starfi hennar áfram, það má spyrja að því.

Óháð því vil ég eins og aðrir taka fram að ég byggi afstöðu mína ekki á vantrausti til eins eða neins í þessu efni og verð að treysta því, miðað við hvernig atkvæðatölur stefna, að þingmannanefnd gefi sér tækifæri til að fara yfir málin og þau sjónarmið sem komið hafa fram í umræðunum (Forseti hringir.) og gefi allsherjarnefnd tækifæri til að fjalla um málið en ekki nokkra klukkutíma eða einn sólarhring eins og stundum hefur gerst hér í þinginu.