138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[10:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er þetta mál komið í þann farveg sem þingið hefur ákveðið og fer til nefndar. Við komum því væntanlega saman aftur innan einhverra daga til þess að halda þingstörfunum áfram. Ég vil leggja það til við forseta þingsins að í forsætisnefnd verði í millitíðinni gert ráð fyrir því að við getum jafnframt rætt hér önnur mál sem brenna á þjóðinni.

Má ég nefna það að hér í þingsal hefur ekki enn þá verið rætt um niðurstöðu Hæstaréttar í gengistryggingarmálum. Má ég nefna það að við höfum ekki enn fengið tækifæri til að ræða niðurstöðu nefndar sem forsætisráðherra skipaði til að fara yfir Magmamálið, ekki hefur enn gefist tími til að ræða það í þingsal. Má ég nefna nýjan dóm héraðsdóms vegna úrskurðar hæstv. umhverfisráðherra um virkjanamál í neðri hluta Þjórsár.

Þingið er að störfum, við erum auðvitað með mjög mikilvægt og alvarlegt mál á dagskrá en við hljótum að gera ráð fyrir því að önnur mál komist hér jafnframt á dagskrá, þó ekki væri nema utan dagskrár. (Forseti hringir.)

Ég fer því þess eindregið á leit við forseta og forsætisnefnd þingsins að það verði tryggt að þegar við komum aftur saman komist þessi mál og önnur á dagskrá.