138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[10:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú hefur fengist niðurstaða um að því máli sem við höfum verið að ræða undanfarna daga verði vísað til frekari umfjöllunar í þingmannanefnd. Ég er ósammála þeirri niðurstöðu en að sjálfsögðu virði ég hana. Það þýðir að þingmannanefndin er komin með forræði á málinu.

Sú tillaga sem flutt hefur verið er um að óska eftir því við þingmannanefndina að hún vísi málinu jafnframt til umfjöllunar í allsherjarnefnd. Þetta er alsiða í þinginu eins og við vitum. Mig rekur ekki minni til þess á þingferli mínum að ekki hafi almennt verið orðið við því. Hæstv. fjármálaráðherra hefur greinilega misskilið málið þegar hann talar eins og hann talaði hér áðan. Það er mjög oft gert eins og allir vita, að vísa málum frá tiltekinni þingnefnd til annarrar nefndar til að fá álit hennar, sérfræðilegt álit, og það er mjög eðlilegt í þessu sambandi og hafa verið flutt fyrir því gild rök.

Ég trúi því ekki að efna eigi til frekari ófriðar um þetta mál með því að hafna því að það komi síðan til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd. Málið á þar heima til umfjöllunar jafnframt.