138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[10:59]
Horfa

Árni Johnsen (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það eru mörg mál, brýn framfaramál sem hafa fallið milli skips og bryggju á undanförnum missirum. Ég vil árétta það sem kom m.a. fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar að brýnt er að ræða mörg þessara mála.

Í morgun var í fréttum Morgunblaðsins viðtal við hæstv. dómsmálaráðherra, Ögmund Jónasson, um að til stæði að taka til hendinni við uppbyggingu á aðstöðu Fangelsismálastofnunar og talaði um að Hólmsheiði væri næsti vettvangur. Það er grundvallaratriði að gera hlutina skynsamlega. Það er mikilvægt að endurbyggja, byggja og breyta á Litla-Hrauni, styrkja aðstöðuna þar. Það er mikilvægt að dreifa ekki yfirbyggingunni sem yrði með byggingu á Hólmsheiði og það er mikilvægt að virða störf utan höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna er þetta brýnt mál sem við þingmenn þurfum að fylgja eftir. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt að gera hlutina skynsamlega.