138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[11:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að biðja þingmenn eins og hv. þm. Höskuld Þórhallsson sem ekki hefur sést í húsi og ekki tekið neinn þátt í umræðum um ákærumálin að vera ekki að gera okkur sjálfstæðismönnum upp sakir um að við séum að reyna að tefja mál. Við erum ekki að því. Við höfum óskað eftir upplýsingum frá forseta þingsins um hvernig hún hyggist haga þingstörfum meðan málin eru til meðferðar í nefndinni. Ég tel mikilvægt að við nýtum þann tíma sem hér skapast til að fjalla um önnur mikilvæg og brýn úrlausnarefni sem uppi eru. Ég get t.d. bent á að Benedikt Bogason, dósent í lögum við Háskóla Íslands, lýsti því á fjölmennum fundi í gær að hugsanleg löggjöf hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um lán í erlendri mynt kynni að brjóta gegn stjórnarskrá og að í farvatninu séu fjölmörg dómsmál þrátt fyrir gengisdóm (Forseti hringir.) Hæstaréttar. Ég tel að við þurfum að ræða þessi mál og kanna hvort ekki (Forseti hringir.) sé ástæða til að taka til umræðu frumvarp sem ég hef lagt fram sem tryggir flýtimeðferð slíkra mála í dómskerfinu. Ég get ekki betur séð en að Hæstiréttur (Forseti hringir.) sé sammála því máli vegna þess að hann veitti (Forseti hringir.) gengistryggingarmálinu flýtimeðferð (Forseti hringir.) en hefur ekki fyrir því lagaheimild.