138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[10:35]
Horfa

Frsm. þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ein umræða fer fram um þessa skýrslu. Umræðan hófst mánudaginn 13. september og stóð þriðjudaginn 14. og miðvikudaginn 15. september. Að loknum fundi á miðvikudegi var þingfundi frestað og þá tók nefndin skýrsluna til umfjöllunar og þá einkum í ljósi framkominna breytingartillagna og boðaðra breytingartillagna.

Nefndin hefur haldið fimm fundi um málið. Hún gaf hv. flutningsmönnum þessara tillagna kost á að koma fyrir nefndina og skýra mál sitt. Það gerðu hv. þm. Þór Saari, Sigurður Kári Kristjánsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Höskuldur Þórhallsson, Pétur H. Blöndal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Nefndin hefur síðan fjallað um allar þær átta tillögur sem þá voru fram komnar — það hefur víst ein bæst við í morgun, skilst mér — og tekið afstöðu til þeirra. Einnig kom Ólína Þorvarðardóttir á fund nefndarinnar og ræddi tillögur um ályktanir varðandi störf ráðherra og embættismanna á árunum fyrir hrun.

Ég ætla þá að víkja að þessum tillögum. Ég vil þó í upphafi segja að margar þeirra eru ekki á verksviði þingmannanefndarinnar eins og það er skilgreint í lögum nr. 142/2008 og í lögskýringargögnum. Jafnframt eru þær margar óviðkomandi sjálfri þingsályktunartillögunni, þær snúa að öðrum hlutum. Ég vil geta þess í upphafi og vík að því síðar.

Hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir og Höskuldur Þórhallsson lögðu fram breytingartillögu um að skilið yrði betur á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds með því að ráðherra gegni ekki þingmennsku. Við ræddum þetta talsvert mikið. Þessi hugmynd hefur komið fram áður, hún er að nokkru óútfærð að því leyti að það er ekki tiltekið hvaða stöðu ráðherra hefði á þinginu, hvernig bregðast ætti við gagnvart stjórnarandstöðu, að efla styrk og aðstöðu stjórnarandstöðu í þessu tilviki, hvort þessi tillaga eigi að leiða til fækkunar þingmanna, um kostnað og fleira.

Forseti Alþingis hefur lagt fram til kynningar hjá þingflokkum tillögu um breytingar á þingsköpum eða ný þingskapalög og við teljum eðlilegt í nefndinni, og þetta frumvarp verður væntanlega lagt fram á komandi þingi, að þessi tillaga sæti skoðun þar og verði rædd þar.

Sigurður Kári Kristjánsson o.fl. flytja tillögu sem lýtur að sjálfstæðri og óháðri rannsókn rannsóknarnefndar varðandi svonefnda Icesave-reikninga, innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi. Meginþungi þeirrar tillögu snýr að því að rannsökuð verði atvik sem falla utan skýrslu rannsóknarnefndarinnar og þar með utan verksviðs nefndarinnar og er henni að því leyti óviðkomandi. Ég vil taka það fram að í nefndinni var ekki andstaða við að slík rannsókn færi fram en meiri hluti nefndarmanna taldi rétt að samningaviðræður yrðu leiddar til lykta við Hollendinga og Breta áður en hún færi af stað. Við bendum á að þessi tillaga verði flutt síðar. Við bendum líka á að fyrirhugað er að setja lög um opinberar rannsóknarnefndir og þar er vettvangur fyrir þessa tillögu.

Hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Sigmundur Ernir Rúnarsson eru flutningsmenn að breytingartillögu í fimm liðum. Fyrsti liðurinn varðar orðalagsbreytingu á upphafi þingsályktunartillögunnar. Við teljum þá tillögu óþarfa.

Í b- og c-lið eru lagðar fram tillögur er varða þingsköp og við vísum til þess að þær tillögur ættu að ganga til þingmannanefndarinnar. Afstaða okkar er að þessu leyti sama og til tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur.

Í d-lið þessarar tillögu er ályktað að fram fari skoðun á erlendum matsfyrirtækjum og erlendum lánveitingum. Þetta er hvorki rannsóknarefni rannsóknarnefndar Alþingis né heldur á verksviði þingmannanefndarinnar eða inni í tillögunum. Við teljum hins vegar að þessi erlendu matsfyrirtæki og lánveitendur beri mikla ábyrgð. Við leggjumst alls ekki gegn slíkri tillögu en leggjum til að henni verði vísað til umfjöllunar á komandi þingi.

Síðan er tillaga um að lög um hlutafélög og einkahlutafélög og fleiri félög verði endurskoðuð. Við höfum í skýrslunni fjallað ítarlega um það og bendum á það í forsendum og meginniðurstöðum okkar að slík endurskoðun á löggjöf fari fram.

Einnig er lögð til tillaga um athugun á sparisjóðunum í tillögu hv. þingmanna og lögð er fram tillaga um rannsókn á sparisjóðnum og við hyggjum að tillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals komi eðlilega þar til skoðunar. Þar er líka fjallað um rannsókn á vátryggingafélögunum. Það fellur líka utan verksviðs okkar.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og fleiri gera breytingartillögu um sjálfstæða og óháða rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram vilji til þess að slík rannsókn yrði gerð en jafnframt var talið að hún þyrfti að ná til fleiri efnisþátta hvað sjóðinn varðar og enn fremur til lánveitinga viðskiptabankanna sem hófu lánveitingar á árinu 2004. Telur nefndin nauðsynlegt að skoða málefni Íbúðalánasjóðs í samhengi við lán viðskiptabankanna til íbúðakaupa. Til að fá heildarmynd af húsnæðismarkaðnum þyrfti einnig að skoða lánveitingar lífeyrissjóða til húsnæðiskaupa en lífeyrissjóðir, viðskiptabankarnir og Íbúðalánasjóður hafa verið helstu fjármögnunaraðilar við kaup á íbúðarhúsnæði. Við teljum sem sagt rétt að lögð verði fram tillaga um þetta á komandi þingi og henni verði hugsanlega vísað til opinberrar rannsóknarnefndar, sem vonandi verður samþykkt með lagafrumvarpi, sem kynnt hefur verið þingflokkunum þannig að lögð verði fram endurbætt tillaga á komandi þingi.

Í breytingartillögu hv. þingmanna Birgittu Jónsdóttur og Þórs Saaris er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að breyta aðalnámskrá grunnskóla þannig að heimspeki verði skyldufag og lagt til ákveðið vægi kennslunnar. Við bendum sérstaklega á það í nefndinni að í meginforsendum okkar í kafla um samfélag og siðferði er beinlínis lagt til að slík kennsla verði tekin upp, siðareglur o.fl., og í tillögunum er gert ráð fyrir að fram fari endurskoðun á lögum um háskóla o.fl. Ég vek líka athygli á að í 12. lið, ef ég man rétt, þingsályktunartillögunnar er hvatt til þess að önnur löggjöf verði tekin til endurskoðunar en við beinlínis nefnum á nafn í tillögu okkar. En við tókum ærlega á þessu í tillögum okkar og vísum til þess.

Í b-lið breytingartillögunnar er lagt til að stjórnsýsluúttekt fari fram á forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyti og starfsháttum þeirra frá ársbyrjun 2007 til loka september 2010. Það voru skiptar skoðanir meðal nefndarmanna um tillöguna einkum í ljósi þess að í skýrslu þingmannanefndarinnar er felldur áfellisdómur yfir stjórnsýslunni á árunum fyrir hrunið í október 2008 og ítarleg rök færð fyrir þeirri niðurstöðu. Við bendum líka á fjölmarga ágalla í stjórnsýslunni. Við leggjum til að stjórnsýslulög verði endurskoðuð og fleiri lög sem lúta að stjórnsýslunni. Við vekjum líka athygli á því að sérstakri nefnd er ætlað að hafa eftirlit með því að þessar úrbætur komist í framkvæmd og verði lokið fyrir 1. október 2012. Við teljum sem sagt að nefndin hafi haft afar skamman tíma til að huga að þessari tillögu og það þurfi kannski að bæta úr henni en við leggjum til að hún verði endurflutt á komandi þingi.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði fyrir nefndina drög að breytingartillögu í fjórum liðum. Fyrsti liðurinn er tvískiptur. Þar er gerð tillaga um rannsókn á einkavæðingunni, þ.e. á sölu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Við bendum á að í umfjöllun nefndarinnar er ítarlega fjallað um þennan þátt. Þá hefur þingmannanefndin tekið afstöðu til einkavæðingar í umfjöllun sinni. Hún er mjög harkalega gagnrýnd í skýrslunni, þeir sem stóðu að henni og aðrir sem komu þar að. Það kemur m.a. fram á bls. 24 og 31 og ég vísa hv. þingmönnum á að lesa þann harða áfellisdóm sem við fellum þar.

Heilmikil umræða varð um þetta og það hefur komið fram í þingræðum að samstaða kunni að vera milli flokka um slíka rannsókn. Hv. formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, og hv. formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lýstu báðir vilja sínum til þess. Við teljum að það sé eðlilegt að reyna að ná samstöðu á milli flokka á komandi þingi og flytja slíka tillögu og afmarka þau rannsóknarefni sem hv. þingmenn telja nauðsynlegt að rýna betur í.

Í sama tölulið í tillögu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er ályktað um rannsókn á matsverði eigna sem fluttar voru milli bankanna við fall þeirra á sínum tíma o.fl. Önnur tillaga sem laut líka, eins og þessi, að málefni sem var fyrir utan rannsóknasvið og verksvið rannsóknarnefndarinnar og er óviðkomandi þingsályktunartillögunni. Við töldum það ekki vera á verksviði okkar að taka þessar tillögur tvær til umfjöllunar vegna þess að þær falla þar fyrir utan.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leggur líka til rannsókn á sparisjóðunum. Sú tillaga er frammi og við bendum á að þau álitaefni sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni í tillögu sinni við slíka rannsókn hljóti að koma til skoðunar. Við rannsókn á sparisjóðunum er óhjákvæmilegt að leggja fyrir Alþingi frumvarp til að veita heimild til slíkrar rannsóknar. Í slíku frumvarpi yrðu væntanlega lögð fram nákvæm drög að því að hverju slík rannsókn ætti að snúa.

Síðan liggja fyrir breytingartillögur frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Það er um þær að segja, eins og ég hef lýst varðandi tillögur sem falla utan verksviðs nefndarinnar, að þær voru ekki undir í rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis, og óviðkomandi að því leyti þingsályktunartillögu okkar. Við höfum þá sömu aðstöðu að slík tillaga ætti betur heima á komandi þingi og verði lögð fram þar án þess að við séum að leggja eitthvert mat á efni þessara tillagna, andstöðu eða nokkuð slíkt.

Síðan er tillaga frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um stjórnsýsluúttekt og við vísum í nefndinni til umfjöllunar okkar um tillögu hv. þm. Þórs Saaris og Birgittu Jónsdóttur um slíka úttekt.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kynnti nefndinni drög sín að breytingartillögu þar sem lagt er til að fram fari sjálfstæð og óháð rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Um þá tillögu vísar nefndin til umfjöllunar sinnar um hliðstæða tillögu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir ræddi við nefndina um ábyrgð ráðherra, embættismanna og hagstjórnarleg mistök sem gerð voru við sölu og einkavæðingu bankanna. Af því tilefni vill nefndin taka fram að m.a. á bls. 24 og 30 í skýrslu nefndarinnar er tekin skýr afstaða til þeirra atriða sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni. Auk þess leggur þingmannanefndin til að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýsluverklagi og skorti á formfestu.

Ég hef þá farið yfir þessar tillögur nema þá síðustu sem mun hafa komið fram í morgun. Ég beini því til flutningsmanna þessara tillagna að þær verði — að því leyti sem þær varða ekki rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis og falla ekki undir verksvið þingmannanefndarinnar, skýrslunnar vegna, ef ég má orða það þannig, og þingsins vegna — dregnar til baka. Í því féllst ekki neinn dómur þingmannanefndarinnar, (Gripið fram í.) ég er að tala fyrir mig núna, ekki neinn dómur á þessum tillögum. Þvert á móti lítum við svo á að þær séu gagnlegar og vel skoðunar virði á komandi þingi.

Við áréttum að lokum mikilvægi þess að um skýrsluna verði fjallað á málefnalegan hátt og hún ásamt þingsályktunartillögu sem henni fylgdi verði leidd til lykta í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Það er áhersluatriði. Ég legg víst seint of mikla áherslu á það að þessi skýrsla, sem við unnum níu manns í þingmannanefndinni, er samstöðuskýrsla. Hún er gagnmerk og tímamót að því leyti. Þess vegna eigum við að kappkosta, þingheimur, að umræðan verði málefnaleg, að við drepum þessari skýrslu ekki á dreif með umræðu um tillögur sem varða ekki skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eða verksvið nefndarinnar. Ég legg á þetta ríka áherslu. Við leggjum til að tillagan verði samþykkt.

Undir þetta nefndarálit rita auk mín hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, Magnús Orri Schram, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Birgitta Jónsdóttir.