138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki alls kostar ásáttur með þetta nefndarálit sem hv. þm. Atli Gíslason mælir fyrir. Stefnan er áfram sú að allir eigi að vera sammála um allt, sem leiðir til þess að niðurstaðan er loðmulla, vegna þess að menn segja ekki nákvæmlega hvað þeir vilja. Hér er öllum tillögum varpað fyrir róða, öllum tillögum hafnað sem koma fram hjá þingmönnum, eins og þingmannanefndin hafi fundið sannleikann.

Verk þingmannanefndarinnar kristallast í tillögu til þingsályktunar og þar vísa nokkur atriði til framtíðar og önnur til fortíðar. Mér finnst við ekki gera nógu skarpan mun þar á og ég lagði til að það yrði skerpt á því hvað það þýðir að Alþingi álykti að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Hvað þýðir þetta eiginlega? Ég vil hafa þetta nákvæmara.

Síðan sagði hv. þingmaður að tillaga mín um það að bæta matsfyrirtækjum og lánveitendum við á listann yfir þá sem þingmannanefndin ályktar að beri mesta ábyrgð á bankahruninu hafi verið beiðni um skoðun. Hún var það ekki, hún var beiðni um að þeir aðilar sem gerðu stjórnendum bankanna kleift að fara út í æfingar sínar yrðu taldir upp. Ef ekki hefði verið fyrir tilverknað matsfyrirtækja hefðu þessir bankar aldrei fengið þessa peninga. Og ef ekki hefði verið fyrir tilverknað lánveitenda hefðu þeir aldrei fengið þessa peninga til þess að leika sér með og þá hefði ekkert hrun orðið.

Ef þingmannanefndin ætlar ekki að horfast í augu við þetta og ætlar að segja að þetta sé bara stjórnendum bankanna að kenna, það sé mest þeim að kenna af öllum, þá er hún á villigötum. Ég er ekki sáttur við þau vinnubrögð að hafna öllu af því að það (Forseti hringir.) eru einhverjar breytingar.