138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður misskilur það sem ég sagði. Við erum hér að ræða nefndarálit og ég sagði að nefndarálitið væri loðmulla og tæki ekki á neinum af þeim góðu tillögum sem hafa komið fram í þinginu og hafi bara vísað þeim öllum frá. Það er loðmulla.

Skýrslan sjálf, ég hef lofað hana í hástert, en tillagan til þingsályktunar, sem hún kristallast í, er að mínu mati loðmulla vegna þess að þar er ekki tekið á og sýnt fram á hvernig menn ætla að breyta hlutunum, t.d. varðandi Alþingi. Það er bara sagt að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Bíddu við, og hvað svo? Hvað þýðir það? Og vísa svo öllu yfir í einhverja endurskoðun sem eigi að koma.

Mér finnst að það þurfi að koma inn í þessa tillögu til þingsályktunar skarpara hvað menn ætli að gera og hvernig menn ætli að gera það.