138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:18]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir var kannski að flytja ræðu mína með eilítið öðru orðalagi. Það er rétt að það liggur fyrir önnur tillaga og auðvitað er þingmönnum fullkomlega frjálst að leggja fram allar þær tillögur sem þeir vilja. Mér var ekki kunnugt um að formaður Framsóknarflokksins væri að vinna slíka tillögu og hann er ekki hér til að svara fyrir það en væntanlega er einfalt mál að ræða þau mál þannig að unnt sé að sjá hvort hægt er að ná þar einhverjum flötum sem liggja saman. Það var nákvæmlega það sem ég var að orða í ræðu minni áðan og það verður svo að koma í ljós hvort það er hægt.

Ég vil hins vegar ítreka það af því að hv. þingmaður orðaði það svo að einkavæðingin 2001 hefði verið rannsökuð í bak og fyrir að ég er einfaldlega ósammála því. Það kemur skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þrátt fyrir þá góðu umfjöllun og ítarlegu á margan hátt sem þar er sé það mál ekki fullrannsakað. Ég tek fullt mark á því og tel reyndar vegna þeirrar reynslu sem við höfum sem setið höfum í þessum sal í nokkur ár að það sé ekki búið að velta við öllum steinum í því máli. Ef við náum saman um að gera slíkt er það auðvitað mjög gott mál, af því að það er ljóst að það sem hv. Alþingi nær saman um er auðvitað sterkasta tillagan af því að þá förum við fram í krafti samstöðu og krafti fjöldans.