138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert þegar menn vísa til reynsluleysis þingmannsins sem er hér í andsvörum en menn verða að eiga það við sjálfa sig hvernig þeir nálgast umræðuna.

Rannsóknarnefnd Alþingis segir, nefndarmenn ítreka það í skýrslu sinni að hér sé ekki um að ræða heildarúttekt á einkavæðingu banka eða tengdum málefnum en þau velja að fjalla um þau atriði sem eru í einhverjum tengslum að þeirra mati við fall bankanna. Þetta er ítarleg úttekt af hálfu rannsóknarnefndarinnar á þeim hluta sem nefndin taldi varða atriði sem tengdust hruni bankanna. Það er einfaldlega þannig. Jafnframt kemst þingmannanefndin, og tekur mjög stórt upp í sig að margra mati, að mjög hörðum niðurstöðum varðandi einkavæðinguna, m.a. þeirri að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna.

Göngum við þá of langt í þingmannanefndinni með því að draga þessar ályktanir þar sem svo virðist að mati margra (Forseti hringir.) þingmanna að málið sé ekki fullupplýst?