138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í mjög merkri skýrslu þingmannanefndar Alþingis sem ég hef margoft lofað les ég eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.“

Þarna sakna ég reyndar flokksræðis, ég hefði viljað hafa það líka. En hv. þingmaður féll í þá gryfju, ég taldi ekki hversu oft, að segja „okkur þingmönnum Samfylkingar“, „ég lofa þessu ekki fyrir hönd flokksins“ o.s.frv. Hún talaði alltaf um flokkinn og flokksræðið, að þetta yrði eitthvað sameiginlegt hjá flokknum o.s.frv. og hún talaði fyrir hönd samfylkingarmanna allra. Þetta finnst mér vera eitthvað sem við þurfum að læra að hætta að segja. Það er nefnilega mjög merkileg niðurstaða í skýrslu þingmannanefndarinnar, þó að það sé ekki nógu skýrt í tillögu til þingsályktunar, að það eigi að taka umræðuhefðina til endurskoðunar. Þetta er eitt af því, að tala ekki alltaf fyrir hönd heils flokks hverju sinni. Ég hef varast það í gegnum minn allt of langa tíma á Alþingi að segja: Við sjálfstæðismenn hugsuðum þetta eða hitt. Ég hugsa bara alltaf sjálfur fyrir sjálfan mig og veit ekkert hvað aðrir sjálfstæðismenn hvað þá aðrir hv. þingmenn eru að hugsa eða gera.