138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir spyr hvort nefndin hafi gert alþjóðlegan samanburð á viðbrögðum við hruni og nefndi til sögunnar Írland. Stutta svarið er nei, það var ekki gert. Grunnur að vinnu rannsóknarnefndar Alþingis og vinnu þingmannanefndarinnar var lagður með lögum, við fórum að þeim lagagrunni. Rannsóknarnefndin fór ekki út í þennan samanburð þó að hann kunni að hafa verið æskilegur. Við gerðum það ekki, við héldum okkur að meginstefnu og nær alfarið við skýrsluna og drógum af henni lærdóm og tókum afstöðu til hennar í einu og öllu en komumst ekki lengra, satt best að segja.

Varðandi einkavæðingartillöguna var þetta rætt ítarlega í nefndinni, mjög ítarlega, og þar segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna.“

Það hefur síðan komið fram eins og ég sagði áðan að það er líklegt að náðst geti samstaða um að afmarka þessa þætti sem standa út af sem þarf að skoða betur. Ég hygg að við ættum að láta reyna á það, reyna að ná þeirri samstöðu, afmarka þau rannsóknarefni sem út af standa og leggja fram sameiginlega tillögu þingmanna um það rétt eins og gert var þegar rannsóknarnefnd Alþingis var komið á fót.