138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil undirstrika að það sem við ræðum hér er hvort þessi rannsókn verði sett inn í skýrsluna og þingsályktunartillöguna sem við höfum verið að ræða í morgun. Það er sú þingsályktunartillaga sem hv. þingmannanefnd er samróma um að gera engar breytingar á. Ég legg áherslu á að þessi breytingartillaga hv. þingmanns verði virkilega hluti af þeirri þingsályktunartillögu vegna þess að það er svo mikilvægt að komast að raun um það hvort þessi undirskrift undir Icesave, skuldbinding fyrir íslenska ríkið, sem með þeim fyrstu hugmyndum sem voru uppi hefði verið alveg óskapleg. Það hefði verið óskapleg niðurstaða ef það hefði verið samþykkt á Alþingi. Enda kom það í ljós við vinnslu málsins á Alþingi að gerðar voru verulega miklar og stórkostlegar breytingar á því frumvarpi sem fyrst var lagt fram, sem sýnir að það naut ekki meirihlutastuðnings á Alþingi. Þess vegna tel ég svo brýnt að þetta verði rannsakað með öllum þeim heimildum sem rannsóknarnefndin fékk á sínum tíma þannig að menn geti virkilega fundið sannleikann í þessu máli eins og menn leituðu að í rannsóknarnefndinni.