138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við ræðum hér skýrslu þingmannanefndarinnar. Mitt innlegg í það mál snýr að því að ég tel að það séu full efnisleg rök og fullar ástæður til þess fyrst þingmannanefndin leggur til að ráðist verði í rannsóknir á sparisjóðunum og lífeyrissjóðunum og ýmsar stjórnsýsluúttektir og Icesave-málið sé svo risavaxið í samanburði við þau mál að það sé rétt að ráðast í slíka rannsókn. Ég harma að um það geti ekki náðst full samstaða meðal allra stjórnmálaflokka á Alþingi að ráðist sé í rannsókn á Icesave-málinu sem yrði sambærileg þeirri rannsókn sem ráðist var í undir forustu Páls Hreinssonar. Hverjir ættu að óttast slíka rannsókn? Ég átta mig ekki á hverjir það eru. Þeir sem telja sig hafa breytt rétt og hafi ekkert að fela hafa ekkert að óttast. Þeir sem hafa engar efasemdir um eigin embættisfærslur ættu að fagna því að þær hlytu úttekt hjá óháðum rannsóknaraðila.

Ég vil líka undirstrika það sem ég sagði. Ég flyt þessa breytingartillögu við þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og þá skýrslu þrátt fyrir að hv. nefnd telji að hún sé ekki tímabær. Ég vil að hún komi til atkvæðagreiðslu á þinginu. Ég þykist vita að erlendir aðilar, erlendir fjölmiðlar muni fylgjast mjög vel með framgangi þessara mála, bæði ákæranna sem verða til umræðu síðar í dag en líka þessu máli. Við þurfum að velta því fyrir okkur: Hvaða skilaboð væri Alþingi að senda út í umheiminn og til Breta og Hollendinga ef alþingismenn felldu tillögu um að Icesave-málið væri rannsakað? Ég er hræddur um að einhverjir mundu túlka slík skilaboð með þeim hætti að þau (Forseti hringir.) stjórnvöld sem vildu fella slíka tillögu hefðu eitthvað að fela, einhver verk sem þyldu ekki skoðun. (Forseti hringir.) Það væru afleit skilaboð, frú forseti, frá hinu háa Alþingi.

(Forseti (ÁRJ): Virða tímamörk.)