138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vitnar í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur frá árinu 2003. Ég hef ekki náð að kynna mér hana en varðandi þessar skattalækkanir þá jukust tekjur ríkissjóðs ekki eingöngu vegna skattalækkana heldur af því að það varð gríðarleg þensla í íslensku samfélagi. Bent hefur verið á að með því að lækka skatta var verið að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og fyrirtækjanna og heimilin gátu viðhaldið neyslustigi sem var langt ofan við hið eðlilega jafnvægi og það sem eðlilegt hefði verið. Þetta olli því að skattastrúktúrinn í ríkisfjármálunum var eyðilagður þannig að það þurfti þensluástand til að skattstofnarnir stæðu undir nauðsynlegum tekjum miðað við þau útgjöld sem voru á þeim tíma. Það segir sig sjálft að þegar það er blússandi þensla og ríkisvaldið lækkar skatta þá aukast skatttekjur ríkissjóðs að sjálfsögðu nema skattalækkanirnar verði svo svívirðilegar að tekjurnar verði nánast engar.

Vandinn sem fylgdi þessu, og það sem hv. þingmaður verður að hafa í huga, og það sem allir ábyrgir þingmenn, sem eru að sýsla með ríkisfjármálin verða að hafa í huga, er sá að ekki má eyðileggja mekkanismann í tekjuöfluninni þannig að hann standi eingöngu undir útgjöldum í blússandi þenslu. Og það var vandamál fyrri ríkisstjórna að þær reyndu að halda uppi fullkomlega ósjálfbærum umsvifum í hagkerfinu til að fjármagna ríkisútgjöldin og töldu, í einhverjum misskilningi, sig vera að vinna almenningi og fyrirtækjum gagn.