138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar. Ég vil taka fram að fyrst búið var að leggja fram þessar breytingartillögur þarf ekki að benda forseta á að greidd verði atkvæði um þær í þinginu. Þegar skýrslan verður tekin fyrir verði allar þær breytingartillögur sem komið hafa fram lagðar samhliða fram og greidd atkvæði um þær.

Hvað þessa tillögu, sem hv. þingmaður er 1. flutningsmaður að, varðar vil ég aðeins lýsa skoðun minni á henni. Það kom fram í nefndinni að við teljum að fara eigi í slíka rannsókn. Ég lagði mikla áherslu á að rannsóknin yrði útvíkkuð þannig að Íbúðalánasjóður yrði ekki einungis skoðaður heldur mundum við, til að geta lært af reynslunni, fara í að skoða húsnæðismarkaðinn í heild, skoða innkomu viðskiptabankanna á húsnæðismarkaðinn og líka hlut lífeyrissjóðanna sem leikið hafa stórt hlutverk á húsnæðismarkaðnum á Íslandi.

Hv. þingmaður talaði um að rannsaka ætti þetta sem hagstjórnarmistök en ég tel að þar sé um ákveðinn misskilning að ræða. Ef við ætlum að fara í rannsókn gefum við okkur ekki fyrir fram þær niðurstöður sem koma úr þeirri rannsókn. Íbúðalánasjóður sendi inn skýrslu og brást mjög harkalega við niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Ég tel að hagstjórnarmistökin hafi legið í því að ríkisstjórnin brást ekki við innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn og hefði raunar átt að setja hámark á veðhlutfall fyrir alla þá sem voru á húsnæðismarkaðinum, ekki bara eins og þeir gerðu gagnvart Íbúðalánasjóði, enda sáum við að það skilaði árangri og það dró úr útlánum Íbúðalánasjóðs, heldur hefði líka átt að gera það gagnvart viðskiptabönkunum og gagnvart lífeyrissjóðunum.