138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil ekki að hagstjórnarþátturinn geti valdið misskilningi. Það er skýrt tekið fram í skýrslunni, sem við erum öll að lofa og prísa, og samþykkja ályktanir á báðar hendur, og algerlega sammála öllu nema varðandi tillögur um ákæru á hendur ráðherrum. Þar er skýrt tekið fram að það eru skattalækkanir, það eru breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs og það eru stóriðjuframkvæmdir við Kárahnjúka. Erum við ekki öll að álykta um að þetta sé nákvæmlega vandamálið?

Að sjálfsögðu er ég ekki að segja að Íbúðalánasjóður sé eina hagstjórnartæki landsins en það er mikilvægur þáttur í hagstjórninni og hefur verið vanræktur sem slíkur. Það hefur verið í gangi afneitun hjá framkvæmdarvaldinu að horfast í augu við það. Íbúðalánasjóður hefur víðtæk áhrif í hagstjórninni.

Ég tel það góðra gjalda vert að Íbúðalánasjóður hafi skilað inn skýrslu um þá gagnrýni sem fram kemur um hann hjá rannsóknarnefndinni. En ég vil þó vara við því að við hér, varðandi ýmsa þætti, förum í gagngera endurskoðun en látum síðan Íbúðalánasjóð vera dómara í eigin sök. Það eru ekki starfsmenn Íbúðalánasjóðs sem munu þurfa að samþykkja og bera ábyrgð á jafnvel tugum milljarða fjárveitinga til Íbúðalánasjóðs. Það eru alþingismenn. Og við þurfum að vera þess fullviss að við séum með óhlutdræga rannsókn á því hver er orsökin fyrir þeim útlátum sem við þurfum að fara í á næsta þingi.