138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Ég vil endilega benda hv. þingmanni á bókanir okkar hvað þetta varðar þar sem við minnumst á þessa greinargerð hjá Íbúðalánasjóði. Við tökum ekki undir það sem Íbúðalánasjóður segir heldur bendum á þær ábendingar sem koma þar fram.

Það var einmitt út af þessari setningu hvað varðar hagstjórnarmistökin að ég leitaði sérstaklega eftir því í vinnu nefndarinnar hvað rannsóknarnefnd Alþingis átti við þegar hún talaði um hagstjórnarmistök. Eins og ég gat skilið það snerust þau ekki um það að orðið hefði útlánaaukning hjá Íbúðalánasjóði heldur um þau skilaboð sem stjórnvöld voru að gefa út á markaðinn með því að hækka veðhlutfallið og gera ekkert til að hafa taumhald á útlánum viðskiptabankanna. Þar liggja hagstjórnarmistökin að mínu mati.

Það væri mjög óeðlilegt af okkur þingmönnum að gera ráð fyrir því að sú stofnun sem fer með meginhluta af íbúðalánum almennings í landinu geti einhvern veginn sloppið undan því áfalli sem við urðum fyrir í október 2008. Ég tel því mjög mikilvægt að fara í þessa rannsókn. Ég get tekið undir það að ég hefði gjarnan viljað skoða það að fá að vera flutningsmaður að þessari tillögu þegar hún kom fram. Þess vegna teldi ég að það væri mjög gott, og ég mundi gjarnan vilja bjóða það fram núna, að við mundum bíða með að afgreiða þessa tillögu hvað varðar skýrslu þingmannanefndarinnar en ég mundi gjarnan vilja taka þátt í því með hv. þingmanni að semja og leggja fram nýja tillögu um að fara í rannsókn á þessu máli og hún yrði samþykkt sem heildstæð rannsókn þar sem við skipum þessa rannsóknarnefnd út frá því sem ég hef verið að benda á.

Ég vil líka gjarnan leggja til, af því að ég veit að þingmaðurinn sat í stjórn Seðlabankans og er hagfræðingur, og legg sérstaka áherslu á það, að við skoðum það að veita Seðlabanka Íslands heimild til að setja reglur um hámarksveðhlutfall eignaflokka í því augnamiði einmitt að auka virkni peningastefnunnar. Þetta getur þá ekki bara virkað gagnvart húsnæðismarkaðinum, þetta gæti líka virkað gagnvart sjávarútveginum og veðsetningum þar.