138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta hv. þingmann. Ég sat ekki í stjórn Seðlabankans heldur seðlabankaráði og er það tvennt ólíkt.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Eygló Harðardóttir muni taka fullan þátt í því að flytja þingsályktunartillögu um nýja húsnæðisstefnu og almennt um einhverja húsnæðisstefnu sem lýtur að því að tryggja að fjölskyldur í þessu landi hafi þak yfir höfuðið og búi við húsnæðisöryggi. Það er húsnæðisöryggið sem skiptir höfuðmáli og hefur ekki verið sjálfgefið fyrir tekjulægri hópa og viðkvæmari hópa í þessu samfélagi.

Ég legg áherslu á að þessi tillaga verði samþykkt því að þetta lýtur að því tæki sem bankinn Íbúðalánasjóður er fyrir ríkisvaldið til að hafa áhrif í hagstjórninni. Ég er alveg sammála því að það er ekki umfang útlánanna sem skiptir máli heldur skilaboðin sem voru gefin með þessum ákvörðunum. Ég ætla því bara að þakka fyrir, frú forseti, mikinn samstarfsvilja hv. þm. Eyglóar Harðardóttur en ég ætla að leggja áherslu á að þessi breytingartillaga verði samþykkt núna á þessu þingi.