138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það segir reyndar í fyrirsögn þessarar þingsályktunartillögu að hún sé viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar. En þegar menn lesa þetta eftir 20 ár þurfa þeir að grafa upp: Bíddu, hvaða rannsóknarnefnd, hvaða skýrsla? Þá er þeim bent á stærstu skýrslu sem hefur verið búin til, alla vega stærstu skýrslu sem ég hef séð, í sjö bindum, og þeir eru litlu nær. Af hverju í ósköpunum má ekki segja einhvers staðar í þessari þingsályktunartillögu að hún sé vegna hrunsins? Ég skil ekki af hverju má ekki segja það.

Það að ná sátt verður til að hver einasti maður hefur neitunarvald í nefndinni, hver einasti maður í nefndinni hafði neitunarvald. Og ekki bara það, menn spurðu líka út í flokkana sína, því miður. Þó að bæði rannsóknarnefndin og þingmannanefndin legðu áherslu á að ekki ætti að vera flokksræði voru menn að spyrja út í flokkana: Er mótstaða við þetta eða hitt? Auðvitað kemur eitthvað út úr því sem segir ekki neitt.

Þessi þingsályktunartillaga sem verður það eina sem situr eftir af öllu þessu starfi segir ekki sérstaklega mikið. Ég vildi nefnilega skerpa á því að hún segði eitthvað en auðvitað getur maður lesið skýrsluna einhvern tíma löngu seinna, ef einhver skyldi finna hana, og fundið út að hún sé út af þessu eða hinu og að hún sé mjög gagnrýnin á þetta eða hitt. Ég hefði viljað sjá tillögur til framtíðar í þingsályktuninni sjálfri: Hvað ætla menn að gera til framtíðar?