138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir að við viljum auka sjálfstæði Alþingis og löggjafarvaldsins viljum við ekki leggja framkvæmdarvaldið niður, það er ekki ein af meginniðurstöðum þingmannanefndarinnar. Ég vek athygli á því að hér er ályktun um að fela forsætisnefnd, viðkomandi nefndum Alþingis, stjórnlaganefnd og síðan forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar, að ráðast í þessar breytingar. Þá leggjum við jafnframt til að það verði nefnd á vegum Alþingis sem hafi eftirlit með úrbótum á löggjöf sem þingmannanefndin leggur til í skýrslu sinni. Það er í lokasetningu þingsályktunartillögunnar. Þingið á að stýra þessu ferli, við ætlumst til að þessi nefnd Alþingis fylgi því hart og fast eftir hvernig unnið verði eftir þessum tillögum en það er okkar, þingmannanna hér, okkar allra, að taka það til okkar og hafa frumkvæði. Hv. þm. Pétur H. Blöndal getur haft allt það frumkvæði varðandi lagasetningu sem þingmaðurinn kýs en þetta er hvorki tillaga um að framkvæmdarvaldið verði lagt niður né að framkvæmdarvaldið megi ekki hafa skoðun á því hvernig móta eigi samfélagið og þá hvernig móta eigi löggjöf. Þetta er ekki tillaga um að þingræðið verði lagt af.