138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að ekki ætti að leggja framkvæmdarvaldið niður. Framkvæmdarvaldið á að framkvæma, heimilin í landinu bíða eftir úrlausnum og það er ekkert verið að framkvæma. Það er einmitt það sem skortir á kannski vegna þess að menn eru svo uppteknir af lagasetningu.

Framkvæmdarvaldið á að framkvæma og Alþingi á að semja lög, það er þannig. Þá hefðu menn kannski tíma til að sinna fjölskyldunum í landinu og heimilunum og gera einhverjar úrbætur í alls konar málum, í heilbrigðismálum, bara nefna það. Það er alls staðar stopp, það er stöðvun alls staðar vegna þess að menn dunda sér á þingi við að semja og framfylgja lögum.

Svo sagði hv. þingmaður, sem var eiginlega allt að því sárt að heyra, að ég geti haft allt það frumkvæði sem ég vildi. Ég er búinn að vera á Alþingi í 15 ár og það hefur ekki verið hlustað á eitt einasta — jú, 2–3 mál hafa verið samþykkt frá mér. Ég er búinn að hafa heilmikið frumkvæði, það hefur ekkert verið hlustað á það. Það er ekki einu sinni rætt. Það er dapurlegt að það skuli ekki einu sinni rætt þegar maður kemur með hugmyndir, t.d. varðandi að dreifa kvótanum á þjóðina o.s.frv. Menn nenna því ekki af því að menn eru afgreiða frumvörp frá hæstv. ríkisstjórn alla daga. Menn eru svo uppteknir við að fara í gegnum frumvörp frá hæstv. ríkisstjórn og sjá svo hvort gangi að framkvæma þau að þeir komast ekki sjálfir í að ræða eigin frumvörp eða frumvörp annarra hv. þingmanna.