138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er fullkunnugt um að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sýnt mikið frumkvæði í sínum störfum og ég vonast til þess (PHB: Heyr, heyr.) að þegar þau meginmarkmið sem við setjum fram með þessari skýrslu verða komin til framkvæmda verði horft meira til frumkvæðis þingmanna. Ég vonast til að svo verði, að það verði afraksturinn, en það er enginn sem ræður því nema við sjálf sem sitjum í þinginu.

Varðandi síðan að framkvæmdarvaldið framkvæmi ekki neitt af því að það sé svo upptekið við að setja lög — og ég er sammála hv. þingmanni um að framkvæmdarvaldið ætti að framkvæma meira, sérstaklega fyrir fjölskyldurnar í landinu — er það ekki meginástæðan fyrir því að framkvæmdarvaldið framkvæmir ekki það sem við teljum að það ætti að gera, meginástæðan er ekki sú að menn eru uppteknir við að setja lög. Ég held að meginástæðan sé sú að stjórnarflokkarnir koma sér bara ekki saman um hvað á að gera. Menn eru gríðarlega uppteknir við að smala köttum í hvert skipti sem þarf að taka eina ákvörðun og það er tímafrekt ferli. Ég tel að ástæðan sé sú. Þess vegna hafa menn ekki komist í að setja fram skýra framtíðarsýn fyrir íslenska þjóð og þess vegna fyllir vonleysi nú huga mjög margra fjölskyldna í landinu og það er alvarlegur hlutur. Leiðin til þess að framkvæma er ekki sú að taka allt frumkvæði varðandi lagasetningu af framkvæmdarvaldinu. Leiðin er væntanlega sú að Sjálfstæðisflokkurinn komist í ríkisstjórn.