138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[13:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í lok umræðunnar um skýrslu þingmannanefndarinnar. Mig langar í upphafi máls míns til að þakka hv. þingmönnum og þingheimi öllum fyrir góðar móttökur og góða umræðu um skýrslu þingmannanefndarinnar. Eftir að umræðu var frestað tók nefndin allar breytingartillögurnar sem höfðu borist eða kynnt hafði verið að yrðu lagðar fram til umfjöllunar og við fórum yfir hvort við gætum gert þær að okkar. Eins og fram hefur komið er skýrslan nokkur samstöðuskýrsla þar sem nefndarmenn eru meira og minna sammála um alla meginhluti sem koma fram í henni. Eins var í þessu tilfelli. Nefndin var sammála um að nokkrar tillögur ættu heima í þeim tillögum sem við höfum þegar lagt fram. Má þar nefna tillögu frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um sparisjóðina sem við teljum að gæti átt heima í þingsályktunartillögunni þar sem við leggjum til frekari rannsókn á sparisjóðunum.

Eins má nefna tillögu frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni varðandi Fjármálaeftirlitið og með hvaða hætti það hafi valið og metið hvaða fjármálafyrirtæki yrðu yfirtekin í kjölfarið á hruninu og hvernig það var gert. Hún gæti vel átt heima í stjórnsýsluúttektinni sem þingmannanefndin lagði til að yrði gerð á Fjármálaeftirlitinu.

Nokkrar tillögur var nefndin sammála um að væru þarfar en ekki endilega sammála um að þær yrðu teknar upp í skýrslu þingmannanefndarinnar, eins og fram hefur komið hjá öðrum flutningsmönnum, bæði flutningsmönnum tillagnanna og þingmönnum og þingmannanefndarinnar, formanninum hv. þm. Atla Gíslasyni og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur.

Sumar þeirra tillagna sem töldum þarfar og bentum á að gætu farið í sérstakt ferli áttu heima í breytingartillögum sem boðaðar hafa verið, m.a. á þingsköpum. Í þó nokkrum tilfellum vísuðum við til boðaðs frumvarps um opinberar rannsóknarnefndir. Mig langar, með leyfi forseta, að fjalla aðeins um það, þó að það sé ekki komið hér á dagskrá, að gefnu tilefni. Í frumvarpinu sem mun verða borið fram af forseta Alþingis stendur, með leyfi forseta:

„Ef Alþingi samþykkir ályktun um skipan rannsóknarnefndar skipar forseti Alþingis nefndina að tillögu forsætisnefndar. Stafi tillaga um skipan rannsóknarnefndarinnar ekki frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins skal sú nefnd taka tillöguna til umsagnar og gefa þinginu álit sitt um hana áður en greidd eru atkvæði um hana.“

Allar þær tillögur sem hér hafa komið fram eru væntanlega þess eðlis að þær koma frá ákveðnum þingmanni eða þingmannahópi. Þeim yrði þá vísað til fyrirætlaðrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis ef boðað frumvarp um hana kemur fram og verður samþykkt, sem mér finnst líklegt. Þingmannanefndin lagði t.d. til slíkar hugmyndir í umfjöllun sinni.

Í þessu frumvarpi kemur fram að rannsóknarnefndin gæti verið skipuð einum eða fleiri nefndarmönnum og forsætisnefnd mundi ákveða fjölda þeirra og velja formann ef um fleiri en einn er að ræða og afmarka umboð. Rannsóknarnefndin yrði auðvitað óháð í störfum sínum frá öðrum, þar með talið Alþingi, og nefndarmenn skulu jafnframt vera óhlutdrægir og óvilhallir gagnvart þeim stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum og öðrum sem slík nefnd mundi fjalla um.

Ég segi þetta vegna þess að í kjölfarið á því að þingmannanefndin lagði fram skýrslu sína og lagði til að fara ætti í ákveðnar rannsóknir er eins og kviknað hafi ljós hjá mörgum þingmanninum um að æskilegt væri að rannsaka eitt og annað. Við getum öll tekið undir að nauðsynlegt sé að rannsaka eitt og annað. Við gætum eytt mjög miklum tíma, fjármunum og orku í að rannsaka stöðugt fortíðina. Ég nefndi það líka í ræðum mínum, bæði um skýrsluna og þingsályktunartillögur um ráðherraábyrgð, að við verðum að tileinka okkur einhverjar leiðir til að ljúka málum. Í sambandi við þær opinberu rannsóknarnefndir sem við nefnum í nefndarálitinu sem góða leið til að vísa öllum þeim rannsóknartillögum sem komu fram í breytingartillögum þingmanna, er rétt að nefna að takmarka þarf umboð þessara nefnda. Það verður að vera skýrt hvað þær eiga að rannsaka og skoða. Það kemur fram í texta um þetta frumvarp sem var dreift til þingmanna í sumar og við áttum að fjalla um, þ.e. frumvarpi til laga um opinberar rannsóknarnefndir, að þessar sérskipuðu rannsóknarnefndir hafa hvorki umboð né varanlega stöðu sem stofnanir í stjórnkerfinu og hafa tiltölulega veika stjórnskipulega stöðu. Það sem gert hefur verið hingað til er að sett hafa verið sérstök lög um hverja einustu rannsóknarnefnd. Núna hugsum við okkur, ef þetta frumvarp verður að lögum, að setja fram með sérstökum hætti opinbera rannsóknarnefndarleið. Ég vil þó nefna að það þýðir að við setjum þá bæði einstaklinga og stofnanir í stórum stíl undir nálarauga opinbers eftirlits og verk þeirra rannsökuð langt aftur í tímann. Við verðum að huga að því, eins og sagt er hér í skýringartexta, að m.a. vegna réttaröryggissjónarmiða er mælt með því að þetta úrræði verði notað af varfærni og einungis í undantekningartilvikum og við sérstakar aðstæður.

Við fjöllum um fjölmargar rannsóknir sem við höfum áhuga á að gera til að skýra eitt og annað í fortíðinni til að geta byggt betri framtíð. En við verðum líka að muna að við þurfum að eyða miklu meiri tíma og orku í að horfa fram á við. Við verðum að fara varlega og sparlega með það vald að setja einstaklinga og stofnanir undir stöðugt opinbert eftirlit og rannsóknir.

Síðan langar mig að segja nokkur orð um þær rannsóknartillögur sem hér hafa verið bornar fram. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri flytja breytingartillögu um rannsóknir á Icesave. Ég minni á að ég nefndi það ítrekað í ræðum mínum í fyrravetur í umfjöllun um Icesave að það væri nauðsynlegt. Ég tel mjög æskilegt að slík rannsókn fari fram. Hvort sem hún ætti að fara fram nú þegar eða við ættum að bíða eftir opinberu rannsóknarnefndarferli þá held ég að skynsamlegast væri að reyna að finna því varanlegan feril. En þetta er ein af þeim tillögum sem ég gæti vel hugsað mér að styðja.

Þá gera hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og fleiri breytingartillögu um sjálfstæða og óháða rannsókn á Íbúðalánasjóði. Nefndin fjallaði um að ef menn ætla sér að nota þessa rannsókn til að setja á laggirnar nýtt húsnæðiskerfi í landinu, en þetta var rætt aðeins fyrr í dag, væri æskilegt að skoða fleiri þætti eins og fasteignalán, bæði lífeyrissjóða, viðskiptabankanna og fleiri. Til umræðu hefur komið, m.a. hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, að verið sé að skoða fleiri fasteignalán en fasteignaútlán Íbúðalánasjóðs. Nefndir hafa verið m.a. þeir fjármunir sem Íbúðalánasjóður fékk í kjölfar þess að bankarnir komu inn á markaðinn í stórum stíl. Þá borguðu menn upp lág lán hjá Íbúðalánasjóði og þeir peningar söfnuðust þar saman. Íbúðalánasjóður var ekki samkeppnisfær við viðskiptabankana vegna undirboða þeirra á vöxtum og hann sat uppi með verulega fjármuni. Valkostir hans voru að setja þá inn í Seðlabankann eða kaupa skuldabréf á þar áður útgefnum lánum, þ.e. fasteignalánum bankanna. Íbúðalánasjóður gerði hið síðarnefnda. Ef hann hefði lagt peningana inn í Seðlabankann hefðu vaxtatekjur Íbúðalánasjóðs verið kannski allt að 10 milljörðum lægri en þær eru. Ég get því vel tekið undir það að nauðsynlegt sé að skoða þessa stöðu en æskilegt væri að skoða hana í stærra samhengi.

Einnig nefndi hv. þingmaður í framsögu fyrir tillögunni að þrjár meginástæður hefðu verið fyrir hagstjórnarmistökum og voru nefndar í rannsóknarskýrslu Alþingis og í þingmannaskýrslunni. Stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi höfðu klárlega áhrif og staðbundin þensluhvetjandi áhrif þar. Síðan voru það útlánareglur Íbúðalánasjóðs, þ.e. varðandi stefnumörkun. Það er samdóma álit og hv. þingmaður viðurkenndi það, að stærðargráðan á útlánum bankanna var kannski 500 milljarðar kr. meðan Íbúðalánasjóður var með 50 og hámarkslán eins og við öll þekkjum. Síðan voru það skattalækkanirnar. Auk þess vil ég nefna, og það er mín persónulega skoðun og kemur reyndar fram í áliti þingmannaskýrslunnar, að bæði ríkisvaldið og borgin, hið opinbera hér á suðvesturhorninu, stóð fyrir umtalsverðum stórframkvæmdum, eins og stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og byggingu tónlistarhússins Hörpu, sem höfðu veruleg þensluhvetjandi áhrif akkúrat á þessu horni, kallaði á innflutning á fjölda iðnaðarmanna og sitthvað fleira.

Engu að síður er tillagan góðra gjalda verð. Við ættum að skoða hana og velta fyrir okkur hvort við getum ekki fellt fleiri þætti inn í hana og samþykkt hana og sett í rannsóknarferlið sem ég áður nefndi.

Tvær aðrar tillögur vil ég nefna. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði fyrir nefndina tillögu um að fara ætti fram frekari skoðun á einkavæðingu og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir o.fl. hafa gert það líka. Ég ræddi það þó í máli mínu um skýrsluna að ég tel mikilvægt að við lærum á einhverjum tímapunkti að ljúka málum, ekki síst í ljósi þess sem ég renndi yfir í sambandi við opinberar rannsóknarnefndir. Menn verða að átta sig á því í hvaða stöðu fólk er stöðugt sett með þeim og við verðum að fara með þetta vald af varfærni. Við verðum líka að læra að ljúka málum. Rannsóknarskýrsla Alþingis upp á níu bindi er að mínu viti nægilegur vettvangur til að ljúka einkavæðingarferlinu. Ef allir í þinginu ná saman um hvernig sé skynsamlegast að gera það, og ekki síst að horfa til þess að bankarnir hafa verið einkavæddir aftur og skoða þurfi það líka, þá tel ég mjög eðlilegt að við mundum sameinast um slíka tillögu í því formi sem við höfum áður nefnt.

Að lokum vil ég nefna breytingartillögu frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Þar er í fyrsta lagi fjallað um að fram færi sjálfstæð og óháð rannsókn á verklagi og ákvarðanatöku íslenskra fjármálafyrirtækja frá gildistöku laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar, og slíka hluti þar sem fyrirtæki hafa verið afskrifuð eða keypt og seld. Ég held að það sé mjög mikilvæg tillaga og get mjög vel fellt mig við hana og hef talað fyrir henni áður í ræðustól. Sjálfsagt er skynsamlegt að reyna að fara með þetta inn í ferli opinberra rannsóknarnefnda.

Þingmannanefndin fjallaði um allar þessar breytingartillögur og náði meira og minna samkomulagi um með hvaða hætti væri hægt að fjalla um þær. Það væri hægt að nefna fleiri, m.a. ágætar tillögur frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem mætti nýta til góðra verka í þinginu.

Að lokum langar mig að ræða aðeins atriði sem talsvert hefur verið fjallað um hér og í skýrslunni, þá nauðsyn að þingmenn standi saman um að draga lærdóm af þeirri dýrkeyptu reynslu sem við höfum gengið í gegnum og bæta bæði verklag okkar og stjórnsýslunnar og fleiri þætti. Mikilvægt er að við stöndum saman að því. Varðandi einn þátt vinnu okkar, sem mun koma til umræðu seinna í dag, þ.e. ráðherraábyrgðina, þá hafa menn jafnvel tekið svo til orða, eins og hv. þm. Skúli Helgason, að sú tilraun sem hafi verið gerð með því að setja þessa þingmannanefnd á laggirnar hafi mistekist í ljósi þess að við náðum ekki sameiginlegri niðurstöðu. Þá má reyndar vitna til orða hæstv. forsætisráðherra í sömu veru. Í skýrslunni sem við skilum nú af okkur erum við meira og minna sammála um hvernig við þurfum að draga lærdóm af því sem gerðist og hvaða leið við eigum að fara til framtíðar og ég held að það sýni og sanni að þetta var ekki tilraun sem mistókst. Ég held að þetta sé einfaldlega dæmi um að það er ekkert óeðlilegt að við séum ósammála í einstökum málum. Í því sambandi vil ég gjarnan benda þingheimi öllum á Tamílaskýrsluna þar sem menn skiptust í flestum tilvikum í flokkslínur eftir því hvernig þeir afgreiddu málið varðandi ráðherraábyrgðina, þó ekki varðandi dómsmálaráðherrann Erik Ninn-Hansen. Þar riðluðust línur nokkuð.

Í lokin vil ég þá ítreka þakkir mínar til þingmanna fyrir málefnalega og efnislega umfjöllun um skýrsluna. Ég vil einnig þakka meðnefndarmönnum mínum og formanni ekki síst, fyrir góða og gagnlega vinnu allan þennan tíma og einnig starfsmönnum frá nefndasviði Alþingis. Ég vona að skýrslan og sú málefnalega umræða sem við höfum átt og tillögurnar sem við leggjum til, verði til þess að við byggjum betra samfélag og betri stjórnsýslu.