138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það að skipa tilsjónarmann hefði þýtt fall bankanna daginn eftir, það er mjög einfalt. Þetta vita þeir sem starfa með banka. Þeir vita það að um leið og einhver efi verður um stöðu bankanna vex sá efi og áhlaup verður á bankana, eins og gerðist reyndar í Kaupþingi í London í byrjun október. Þetta er því mjög vandmeðfarin staða og ekki rétt að menn hafi ekki gert neitt, menn gerðu heilmikið í stöðunni á þeim tíma.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann líka um ræðu hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem hann sagði að það yrði að kjósa. Erum við að ræða hér um pólitík? Er það þannig að hv. þingmaður er að vinna þetta og segir: Við ætlum að kjósa ef þetta verður ekki samþykkt, fá nýja pólitík í landið? Ég lít þannig á að við séum ekki að ræða pólitík en eru þetta virkilega pólitísk réttarhöld?