138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gat um eitt atriði sem ég vil gjarnan fá skýrari sýn á og það var flutningur banka úr landi. Mjög margir eru vitrir í dag sem voru ekkert voðalega vitrir þá, fyrir hrun og eftir hrun, og ég er þar á meðal. Ég vissi ekki að hrunið kæmi og mig vantaði þær upplýsingar sem við nú vitum um stöðu bankanna og allt það sem gerðist. Þar sem ég gat ekki vitað það hugsa ég að ég hefði verið á móti því á þeim tíma að Kaupþing færi úr landi, að 2.500 hálaunuð störf færu úr landi og starfsmennirnir hugsanlega með og fjölskyldurnar. Ég hugsa að ég hefði ekki verið sammála því og ég er bara hreinskilinn með það vegna þess að mig vantaði upplýsingarnar. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hefði verið í hópi með mér og verið líka á móti því að Kaupþing færi úr landi á þeim tíma vegna þess að okkur vantaði upplýsingar. Og af hverju vantaði okkur upplýsingar? Ég hef spurt tvo þingmenn hvað þeir hefðu gert í þessari merkilegu stöðu. Okkur vantaði upplýsingar af því að það mátti ekki gefa þær. Ef þær hefðu verið gefnar hefði verið hætta á því að bankarnir færu á hausinn daginn eftir, einhver hefði lekið upplýsingum, einhver hefði sagt frá og bankarnir hefði farið á hausinn. Og þá væri núna verið að ákæra ráðherrana fyrir að hafa sett bankana á hausinn, fyrir að hafa lekið upplýsingunum.

Ég spurði hv. þm. Atla Gíslason að því rétt áðan hvað hann mundi gera. Og hvert var ráðið? Að skipa tilsjónarmann. Yndislegt, frú forseti. Það er akkúrat málið. Daginn eftir hefðu bankarnir farið á hausinn. Ef hann hefði verið ráðherra væri núna verið að ákæra hann fyrir að setja bankana á hausinn.