138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt að fyrrverandi utanríkisráðherra segir í bréfi sínu að hún hafi skrifað undir yfirlýsinguna með gjaldeyrisskiptasamningnum fyrir hæstv. forsætisráðherra. Hins vegar kemur ekki fram … (Gripið fram í: Þáverandi félagsmálaráðherra.) þáverandi félagsmálaráðherra — en hins vegar kemur hvergi fram að fyrrverandi utanríkisráðherra hafi skrifað undir yfirlýsinguna með fyrirvara. Síðan getum við gert ráð fyrir því að hún hafi þar með skuldbundið sig til að fylgja því eftir sem þar stóð, enda hefðu þeir sem skrifuðu undir yfirlýsinguna átt að gera sér grein fyrir því að norrænir seðlabankar færu ekki fram á slíka undirskrift og skuldbindingu af hálfu ráðamanna á Íslandi nema verulega alvarlegar ástæður lægju þar að baki. (PHB: Það er einmitt …) Ég vil taka það fram vegna fyrirspurnar hv. þingmanns að oddvitaræði er ekki eitt af (Forseti hringir.) ákæruatriðunum.