138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fjallaði um hættubrot og rakti hvernig óþarft sé að sýna fram á orsakatengsl við tjónið. Það sem hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir er að það er refsiskilyrði að viðkomandi ráðherrar hafi getað gert eitthvað í málinu. Ekki hefur verið sýnt fram á hvað það ætti að vera. Að öðru leyti vekur auðvitað mikla athygli hér í seinni umræðu málsins, sem fram fer eftir að fyrrverandi utanríkisráðherra hefur lagt opinberlega fram langa greinargerð þar sem rakin eru öll þessu ákæruatriði, að ekki skuli vera svarað einu orði af því sem þar hefur verið bent á, eins og t.d. að öllum þeim upplýsingum sem sagt er að fyrrverandi utanríkisráðherra hafi setið á hafi verið miðlað til viðskiptaráðherra.

Ég vil fá að bera upp eina spurningu við hv. þingmann: Getur hv. þingmaður nefnt mér eitt dæmi um að fyrrverandi utanríkisráðherra, eða einhver annar ráðherra (Forseti hringir.) í þeirri ríkisstjórn, hafi farið inn á valdsvið annars ráðherra? Og hvaða dæmi erum við þá með um það?