138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þingmaður og þeir sem standa að þessum málatilbúnaði misskilji algjörlega alla umræðu um valdsvið ráðherra, fullkomlega. Í fyrsta lagi liggur fyrir að þeim upplýsingum sem hér er verið að ræða um var deilt með fyrrverandi viðskiptaráðherra. Síðan er hitt algjörlega óútskýrt: Hvaða hætta er það sem flutningsmenn tillögunnar telja að viðskiptaráðherra hafi ekki gert sér grein fyrir? Ég skrifaði um það grein í febrúarmánuði þetta ár þar sem ég sagði: Ef bönkunum mistekst að endurfjármagna sig fara þeir á hausinn, þá verður hér fjármálakrísa og það eru ákveðnar líkur á að það gerist. Er verið að halda því fram að viðskiptaráðherra hafi ekki áttað sig á þessu?

Við vorum að ræða þetta hér í hverri viku nánast, a.m.k. í hverjum mánuði á þinginu. Það var öllum ljóst að skuldatryggingarálagið var komið upp í hæstu hæðir. Hvaða hætta er það sem menn tala um að viðskiptaráðherra hafi ekki verið meðvitaður um? Hvaða hætta er það? Er verið að segja að hann hafi ekki áttað sig á því að það var bankakrísa í heiminum og hafði varað frá haustinu 2007?