138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki hægt annað en að bregðast við nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Hann fór hér m.a. að miklu leyti með grein sem hann ritaði í Morgunblaðið í síðustu viku og fjallar um landsdóm og umræðuna um hann á Alþingi í kringum 1963. Ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég las þá grein datt mér í hug: Þetta sem helst nú varast vann varð þó að koma yfir hann. Vegna þess að það sem hv. þingmaður rekur í grein sinni og kemur líka fram í ræðu hans hér er í fyrsta lagi að til þess að fella dóma í máli af þessum toga sé krafist mikilla matskenndra ástæðna eða tilvika. En þingmaðurinn fellur auðvitað í þá gröf sjálfur að láta sitt eigið mat ráða afstöðu sinni. Hann vill sem sagt að þingið sé sammála honum um hans mat. Það má enginn hafa aðra skoðun á því eða komast að annarri niðurstöðu.

Svo rekur hann umræðurnar um það að við getum verið að innleiða pólitískar ákærur, einfaldlega ef við göngum þá leið sem hér er lögð til. Í raun og veru felst í skrifum hans og orðum ákveðin hótun um að það muni taka við. Gleymir þingmaðurinn þá ekki grundvallaratriði hvað þetta snertir, nefnilega því að Alþingi varð sammála um að setja á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd í þessu máli? Mig minnir að þáverandi hæstv. forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson. og þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir Haarde, hafi verið fyrstu flutningsmenn þess máls. Niðurstaðan varð sú að fara í ítarlega rannsókn. Það hafði enginn gefið sér neitt fyrir fram í því efni. Það var niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að ákveðnir ráðherrar hefðu gerst sekir um vanrækslu og meiri hluti þingmannanefndarinnar komst að sömu niðurstöðu. (Forseti hringir.) Þessu gleymir hv. þingmaður að sjálfsögðu (Gripið fram í.) í sínu máli og sinni grein.